Fínn leikur Elvars í sigri á toppliðinu

Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Elvar Már Friðriksson átti fínan leik er Rytas Vilnius lagði topplið Zalgiris Kaunas, 100:94, á útivelli í efstu deild í körfubolta í Litháen.

Elvar lék tæpar 19 mínútur í leiknum og skoraði á þeim átta stig. Hann hitti úr öllum þremur skotum sínum utan af velli, einu tveggja stiga og tveimur þriggja stiga. Þar að auki tók hann tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Þrátt fyrir úrslit leiksins er Zalgiris enn á toppi deildarinnar með 18 sigra í 22 leikjum. Rytas er í öðru sæti en minnkaði í dag forskotið niður í tvo sigra. Það er því enn ágætis möguleiki fyrir Elvar og félaga að enda efstir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert