Martin Hermannsson sneri aftur á körfuboltavöllinn í sigri Valencia á Girona, 79:75, í spænsku ACB-deildinni í dag.
Martin sleit krossband í hné 31. maí á síðasta ári og hefur því verið frá keppni í rúmlega níu mánuði. Hann lék rúmlega 12 mínútur í leiknum í dag, skoraði þrjú stig og gaf fjórar stoðsendingar. Martin var í hóp Valencia í fyrsta sinn eftir meiðslin í síðustu viku þegar liðið mætti Real Madrid í Euroleague en þá kom hann ekkert við sögu í leiknum.
Valencia er í áttunda sæti deildarinnar með 24 stig, í harðri baráttum um sæti í úrslitakeppninni.