Njarðvík hafði betur gegn Keflavík

Raquel De Lima var stigahæst Njarðvíkinga í kvöld. Hér er …
Raquel De Lima var stigahæst Njarðvíkinga í kvöld. Hér er hún með boltann í leik gegn Fjölni fyrr í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvík hafði betur gegn Keflavík, 75:74, í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld. Keflavík er enn í efsta sæti deildarinnar með 42 stig á meðan Njarðvík er í 4. sætinu með 28 stig.

Keflavík þarf sigur gegn Val á heimavelli á miðvikudag til að vinna deildarmeistaratitilinn. Njarðvík siglir lygnan sjó í fjórða sætinu og hefur tryggt sæti sitt í úrslitakeppninni.

Gestirnir úr Keflavík byrjuðu betur en heimakonur í Njarðvík sneru taflinu við í fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum, 16:15. Dæmið snerist við öðrum leikhluta sem Njarðvík byrjaði betur en Keflavíkurkonur náðu yfirhöndinni og leiddu þegar liðin gengu til búningsherbergja eftir annan leikhluta, 37:33.

Gestirnir höfðu frumkvæðið í þriðja leikhluta og höfðu aukið forskot sitt í sjö stig þegar þriðji leikhluti var allur. Keflavík leiddi nær allan fjórða leikhlutann þó Njarðvíkurkonur væru ekki langt undan. Þegar um 20 sekúndur lifðu leiks náði Njarðvík að minnka muninn í eitt stig í stöðunni 72:73.

Þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum fékk Njarðvík kjörið tækifæri til að jafna leikinn en þær misstu boltann og Keflavík var í raun með pálmann í höndunum.

Tvö vítaskot fóru forgörðum hjá gestunum og Njarðvík komst í sókn sem lauk með þriggja stiga körfu frá Raqu­el De Lima þegar aðeins um ein sekúnda var eftir af leiknum. Keflavík náði ekki skoti að körfu heimakvenna og Njarðvík hrósaði sigri með minnsta mun.

Raquel De Lima skoraði 20 stig fyrir Njarðvík, gaf fimm stoðsendingar og tók fimm fráköst að auki og Aliyah Collier skoraði 16 stig, tók 16 fráköst og gaf átta stoðsendingar fyrir heimakonur.

Daniela Wallen skoraði 25 stig og tók 11 fráköst fyrir Keflavík og Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 19 stig fyrir gestina.

Njarðvík - Keflavík 75:74

Ljónagryfjan, Subway deild kvenna, 12. mars 2023.

Gangur leiksins: 1:7, 3:11, 8:14, 16:15, 19:17, 26:19, 28:26, 33:37, 41:41, 44:47, 48:52, 52:59, 57:64, 61:70, 65:70, 75:74.

Njarðvík: Raquel De Lima Viegas Laneiro 20/5 fráköst/5 stoðsendingar, Aliyah A'taeya Collier 16/16 fráköst/8 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 13/11 fráköst, Lavinia Joao Gomes Da Silva 12/11 fráköst, Erna Hákonardóttir 9, Bríet Sif Hinriksdóttir 5.

Fráköst: 29 í vörn, 15 í sókn.

Keflavík: Daniela Wallen Morillo 25/11 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 19, Agnes María Svansdóttir 14, Karina Denislavova Konstantinova 8/11 fráköst/8 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, Birna Valgerður Benónýsdóttir 2, Eygló Kristín Óskarsdóttir 2, Ólöf Rún Óladóttir 2.

Fráköst: 24 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Bjarni Rúnar Lárusson.

Áhorfendur: 187.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert