Álftanes leikur í fyrsta skipti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik næsta vetur en liðið tryggði sér sigur í 1. deild karla í kvöld með sigri á Skallagrími á heimavelli sínum á Álftanesi, 96:83.
Stundin er söguleg fyrir Álftanes sem aldrei áður hefur átt lið í efstu deild í einhverri af þremur vinsælustu boltagreinunum, fótbolta, körfubolta eða handbolta.
Þetta var 22. sigur Álftnesinga í 25 leikjum í deildinni í vetur og þeir eru með fjögurra stiga forskot á Hamar úr Hveragerði þegar tveimur umferðum er ólokið. Þar sem Álftanes er með betri útkomu í innbyrðis viðureignum liðanna í vetur er úrvalsdeildarsætið þegar í höfn.
Skallagrímur verður hins vegar eitt fjögurra liða sem fara í umspil um eitt sæti í úrvalsdeildinni, ásamt Hamri og Sindra frá Hornafirði, og liðinu sem endar í fimmta sæti en það verður Fjölnir, Ármann eða Selfoss.
Álftnesingar náðu yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta í kvöld og voru yfir að honum loknum, 25:17. Þeir skoruðu síðan 32 stig í öðrum leikhluta, hálfleiksstaðan var því 57:34 og úrvalsdeildarsætið blasti við.
Lærisveinar Kjartans Atla Kjartanssonar gáfu það ekki eftir. Borgnesingar minnkuðu þó muninn í þriðja leikhluta og staðan að honum loknum var 71:55. Þeir áttu hins vegar aldrei möguleika á að ógna sigri Álftnesinga í fjórða leikhluta.
Srdan Stojanovic skoraði 28 stig fyrir Álftanes og Dúi Þór Jónsson var með 20 stig og 11 stoðsendingar. Keith Jordan skoraði 37 stig fyrir Skallagrím.
Gangur leiksins: 4:9, 11:13, 19:17, 25:17, 33:21, 42:26, 46:31, 57:34, 65:38, 65:44, 65:52, 71:55, 77:63, 87:67, 91:73, 96:83.
Álftanes: Srdan Stojanovic 28/6 fráköst, Dúi Þór Jónsson 20/4 fráköst/11 stoðsendingar, Eysteinn Bjarni Ævarsson 14, Cedrick Taylor Bowen 14/8 fráköst, Dino Stipcic 14, Snjólfur Marel Stefánsson 6/8 fráköst.
Fráköst: 25 í vörn, 6 í sókn.
Skallagrímur: Keith Jordan Jr. 37/13 fráköst, Bergþór Ægir Ríkharðsson 18/6 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 11/8 fráköst/9 stoðsendingar, Marinó Þór Pálmason 8, Milorad Sedlarevic 7/7 fráköst, Orri Jónsson 2.
Fráköst: 27 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Birgir Örn Hjörvarsson.
Áhorfendur: 367.