Á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands sem haldið verður 25. mars verður lagt til að felld verði úr gildi regla um að erlendir ríkisborgarar sem hafa verið búsettir á landinu í þrjú ár teljist ekki vera erlendir leikmenn í úrvalsdeildum karla og kvenna.
Það er vinnunefnd stjórnar KKÍ um málefni erlendra leikmanna sem leggur tillöguna fram og segir í greinargerð sinni:
Í upphafi árs 2022 var skipuð vinnunefnd stjórnar KKÍ til að skoða hvort breytinga væri þörf á grein 15 í reglugerð um körfuknattleiksmót, og skildi hún skila tillögu fyrir þing sem haldið yrði að vori 2023.
Vinnunefndin hóf samtal við liðin í efstu tveimur deildum karla og kvenna til að kanna hug félaganna til þessarar reglugerðar og greina út frá þeim samtölum hvort gera ætti breytingar.
Framlögð tillaga um breytingu á reglugerðinni er afrakstur þessarar vinnu. Það er mat nefndarinnar, eftir að hafa kynnt ítrustu samantekt á formannafundi og samtölum eftir það, að reglugerðin taki þeim breytingum frá gildandi reglugerð að fellt sé úr gildi það sem snýr að 3ja ára reglunni, hún alfarið tekin út. Eins er gerð sú breyting að sömu reglur gildi í efstu tveimur deildum karla og kvenna.
Tíu leikmenn falla undir þessa reglu og teljast ekki vera erlendir leikmenn á yfirstandandi tímabili. Þeir geta því spilað án takmarkana með sínum liðum. Þeir eru því undanskildir reglum um erlenda leikmenn sem annars eru á þann veg að innan vallar hverju sinni hjá hverju liði mega aðeins vera þrír erlendir leikmenn, þar af einn sem ekki er ríkisborgari EES-ríkis.
Leikmennirnir eru Jaka Brodnik og Dominykas Milka hjá Keflavík, Matej Karlovic, David Guardia og Nemanja Knezevic hjá Hetti, Everage Lee Richardson hjá Breiðabliki, Mario Matasovic hjá Njarðvík, Shanna Dacanay hjá Fjölni, Gerald Robinson hjá Selfossi og Dino Stipcic hjá Álftanesi.
Höttur á Egilsstöðum leggur hins vegar fram tillögu á þinginu um að reglan verið útfærð á víðtækari hátt og gildi í öllum deildum í meistaraflokki karla og kvenna. Í greinargerð Hattarmanna segir að mörg félög á landsbyggðinni hafi mikla þörf fyrir erlenda leikmenn og ættu hreinlega erfitt uppdráttar með að manna lið án þeirra.
„Í stað boða og banna þurfa félög einfaldlega að sníða stakk eftir vexti og sýna ábyrgð í rekstri,“ segir m.a. í greinargerðinni.