Fékk átta leikja bann fyrir byssumyndskeið

Ja Morant í leik með Memphis Grizzlies.
Ja Morant í leik með Memphis Grizzlies. AFP/Tim Nwachukwu

Ja Morant, stærsta stjarna Memphis Grizzlies í NBA-deildinni, hefur verið úrskurðaður í átta leikja bann án launa af deildinni vegna myndskeiðs sem hann birti af sér ölvuðum og haldandi á skotvopni á næturklúbbi í Colorado-fylki á Instagram-aðgangi sínum.

NBA-deildin hefur lokið rannsókn sinni á atvikinu og þótti ekki sannað að byssan væri í eigu Morants. Sömuleiðis hafi ekki verið sýnt fram á að hann hafi verið með skotvopnið lengur en skamma stund og þá hafi Morant ekki verið með það í flugvél Memphis er liðið ferðaðist til Denver til að spila gegn Denver Nuggets.

Hegðun hans var þó metin á þann veg að hún kæmi óorði á deildina og var hann því úrskurðaður í átta leikja bann.

Eftir atvikið var Morant strax settur til hliðar og hefur því þegar tekið út fimm leiki af átta. Getur hann snúið aftur í liði Memphis þegar það mætir Dallas Mavericks þann 21. mars næstkomandi.

Morant, sem er 23 ára gamall bakvörður, hefur leikið frábærlega á yfirstandandi tímabili þar sem hann hefur skorað 27 stig að meðaltali í leik, tekið sex fráköst og gefið átta stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka