Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Hinn 9. júní árið 1981 urðu merkileg tímamót í íslenskri íþróttasögu þegar tilkynnt var að Portland Trail Blazers hefði valið Pétur Guðmundsson í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfuknattleik.
Pétur hafði leikið með University of Washington í NCAA háskólaboltanum í Bandaríkjunum og vakti greinilega athygli þar fyrst hann var valinn í nýliðavalinu. Þar komast færri að en vilja eins og þekkt er. Síðar áttu Evrópubúar eftir að setja mikinn svip á NBA og því er þáttur Péturs í því merkilegur. Í dag eru sumar af stærstu stjörnum deildarinnar frá Evrópu.
Pétur lék 68 leiki fyrir Portland tímabilið 1981-1982 og hefur því verið haldið fram að hann sé fyrsti Evrópubúinn sem lék í NBA en mögulega hafi einhverjir verið áður valdir í nýliðavalinu án þess að spila leik. Pétur fékk ekki stórt hlutverk frekar en margir aðrir á fyrsta tímabili í deildnini en skoraði um 3 stig að meðaltali og tók að jafnaði 3 fráköst á þeim mínútum sem hann fékk.
Á myndinni sem til er í safni Morgunblaðsins má sjá betur fylgjast með samherjum sínum hjá Portland keppnistímabilið 1981-1982. Birtist hún í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins hinn 7. nóvember 1982 þar sem Þórarinn Ragnarsson ræddi við Pétur.
Pétur var eitt tímabil í herbúðum Portland en fékk síðar stórt tækifæri þegar Los Angeles Lakers samdi við hann á miðju tímabili 1985-1986. Þar kom Pétur inn í eitt frægasta lið í sögu deildarinnar sem á þessum árum fékk viðurnefnið Showtime. Þrír úr liðinu eru í heiðurshöll körfuboltans í Bandaríkjunum og voru á meðal 75 leikmanna sem heiðaðir voru á 75 ár afmæli deildarinnar: Kareem Abdul Jabbar, Magic Johnson og James Worthy.
Lakers gerði skammtímasamning við Pétur en um sumarið hafði hann sannað sig í firnasterkum leikmannahópi liðsins og var þá gerður við hann tveggja ára samningur. Pétur varð fyrir slæmum bakmeiðslum á undirbúningstímabilinu síðsumars og fór til San Antonio Spurs í leikmannaskiptum þegar leið á veturinn 1986-1987.
Hann varð leikfær á ný og var um tíma byrjunarliðsmaður hjá San Antonio Spurs en þar var Pétur til 1989. Þá mætti hann sumum af þekktustu leikmönnum sögunnar eins og Michael Jordan og Larry Bird svo einhverjir séu nefndir.
Alls lék Pétur 150 leiki í NBA-deildinni og þar af 14 í úrslitakeppninni. Er hann eini Íslendingurinn sem leikið hefur í deildinni en Jón Arnór Stefánsson samdi við Dallas Mavericks snemma á þessari öld en fékk ekki tækifæri í deildarleik og reyndi fyrir sér í Evrópu með góðum árangri.
Pétur hafnaði í 2. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1981, 6. sæti árið eftir og í 5. sæti árið 1986.
Pétur var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2015.