Körfuboltamaðurinn Lauri Markkanen er orðinn vinsælasti íþróttamaður Finnlands og það eru söguleg tímamót í landinu.
Basket.fi greinir frá þessu og vísar í umfjöllun Sponsor Insight um vinsælasta íþróttafólk landsins. Þar segir að Finnar eigi langa og ríkulega hefð af íþróttafólki í einstaklingsgreinum í fremstu röð og nú sé flokkaíþróttamaður í fyrsta sinn á toppnum.
Markkanen, sem er 25 ára gamall, á góðu gengi að fagna með Utah Jazz í NBA-deildinni en þar lék hann áður með Cleveland Cavaliers og Chicago Bulls.