Geof Kotila er látinn

Geof Kotila, þjálfari Snæfells, tolleraður eftir sigur í bikarúrslitaleiknum í …
Geof Kotila, þjálfari Snæfells, tolleraður eftir sigur í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni árið 2008, sem fór fram á 49 ára afmælisdegi hans, 24. febrúar. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Bandaríski körfuknattleiksþjálfarinn Geof Kotila, sem náði frábærum árangri með lið Snæfells úr Stykkishólmi, er látinn, 64 ára að aldri.

Kotila þjálfaði karlalið Snæfells á árunum 2006-08 og undir hans stjórn varð liðið bikarmeistari árið 2008, í fyrsta skiptið í sögunni, og lék jafnframt til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn Keflavík vorið 2008 en tapaði einvíginu. Fyrir úrslitakeppnina var Kotila valinn þjálfari ársins í deildinni.

Fyrir utan þessi tvö ár í Stykkishólmi hefur Kotila búið og þjálfað í Danmörku frá árinu 1995. Hann var með lið Horsens og Bakken Bears áður en hann kom til Íslands og með Næstved um fimm ára skeið frá árinu 2008. Eftir það starfaði hann í kringum körfuboltann í Danmörku, þjálfaði yngri flokka, og hefur frá árinu 2016 verið framkvæmdastjóri Basketligaen, dönsku karladeildarinnar.

Áður en Kotila flutti til Danmerkur var hann í sjö ár aðalþjálfari körfuboltaliðs Michigan Tech háskóla.

Þá störfuðu Kotila og Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, lengi saman við bæði körfuboltaþjálfun og enskukennslu hjá Efterskolen í borginni Nyborg í Danmörku.

Geof Kotila fylgist með Snæfelli í leik í úrvalsdeildinni.
Geof Kotila fylgist með Snæfelli í leik í úrvalsdeildinni. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert