Greeta Uprus átti stórleik fyrir ÍR þegar liðið vann nauman sigur gegn Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Smáranum í Kópavogi í 27. umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með tveggja stiga sigri ÍR, 79:77, en Uprus skoraði 27 stig, tók sjö fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum.
Mikið jafnræði var með liðunum allan tímann en ÍR leiddi með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 21:18, en Blikar snéru leiknum sér í vil í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik, 48:42.
ÍR tókst að minnka forskot Breiðabliks í eitt stig í þriðja leikhluta, 60:61, og Breiðhyltingar voru svo sterkari í fjórða leikhluta og fögnuðu sigri.
Margrét Blöndal skoraði 13 stig fyrir ÍR og tók tíu fráköst en Birgit Ósk Snorradóttir var stigahæst hjá Breiðabliki með 22 stig, sjö fráköst og fjórar stoðsendingar.
ÍR, sem var fallið fyrir leik kvöldsins, er áfram í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, en Breiðablik er í sjöunda og næstneðsta sætinu með átta stig.