Riley Marie Popplewell átti stórleik fyrir Stjörnuna þegar liðið lagði KR að velli í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna í körfuknattleik í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ í dag.
Popplewell setti 22 stig og tók 23 fráköst ásamt því að gefa fimm stoðsendingar í sex stiga sigri Stjörnunnar, 102:96.
Stjörnukonur leiddu að öllum leikhlutum loknum en KR komst yfir þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum, 92:96. Stjörnuliðið var hinsvegar sterkara á lokamínútunum og vann að lokum sex stiga sigur.
Ásamt Popplewell átti Ísold Sævarsdóttir fantafínan leik fyrir Stjörnuna en hún setti 27 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Atkvæðamest í liði KR var Violet Morrow með 30 stig, átta fráköst og þrjár stoðsendingar.
Stjarnan leiðir því einvígið með einum sigri gegn engum. Þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið en næst mætast liðin á Meistaravöllum á þriðjudaginn kemur. Sigurlið úrslitakeppninnar vinnur sér sæti í úrvalsdeildinni.