Bjarni Magnússon, þjálfari Haukakvenna, var ekki sáttur eftir 73:71-tap á heimavelli fyrr í kvöld.
Haukakonur höfðu yfirhöndina fram í þriðja leikhluta og komust mest tuttugu stigum yfir en þær misstu tökin á leiknum og Valskonur nýttu sér það og fögnuðu mikilvægum sigri.
„Við áttum mjög góðan fyrri hálfleik og ætluðum að fylgja því betur eftir í þeim síðari en það tókst ekki. Þetta eru tvö jöfn og góð lið og því miður náðum við ekki að svara þeim þegar þær náðu sínu áhlaupi. Þær gerðu það mjög vel og spiluðu frábærlega í seinni hálfleik. Við hefðum aftur á móti alveg getað klárað þetta undir lok leiksins en vorum ekki nógu miklir töffarar og því fór sem fór.“
Haukakonur skoruðu aðeins sjö stig í fjórða leikhluta og ljóst er að erfitt er að vinna körfuboltaleiki með slíkri frammistöðu.
„Það var ekki eins og við værum að fá erfiðari færi en Valskonur, þær settu sín skot niður og við klikkum á dauðafærum og vítum. Þá er þetta orðið virkilega erfitt, þegar þú nýtir ekki tækifærin þín.“
Spurður hvað hægt væri að taka út úr þessum leik og yfirfæra á næsta leik, sagði Bjarni:
„Ég tek það út úr þessum leik að þetta er hörkusería, eins og ég vissi, og þrátt fyrir að leikmenn hafi verið að ströggla við að koma boltanum í körfuna, þá voru leikmenn að leggja sig 100% fram og gefa sig í verkefnið. Við þurfum bara að vera aðeins meiri töffarar í næsta leik. Þetta er leikur áhlaupa og við svöruðum ekki þeirra áhlaupi nógu vel í þetta skiptið. Við þurfum að gera það betur á fimmtudaginn.“
Næsti leikur í seríunni fer fram á fimmtudagskvöldið á Hlíðarenda og má búast við hörkuleik tveggja frábærra liða.