Kiana Johnson átti stórleik fyrir Val þegar liðið heimsótti Hauka í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Ólafssal í kvöld.
Leiknum lauk með tveggja stiga sigri Vals eftir framlengdan leik, 73:71, en Johnson skoraði 30 stig, tók ellefu fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum.
Fyrsti leikhluti var mjög jafn og mátti vart sjá mun á liðunum tveimur. Staðan að honum loknum, 20:20.
Í öðrum leikhluta tóku heimakonur öll völd á vellinum og settu niður hvern þristinn á fætur öðrum auk þess að spila glimrandi varnarleik. Gestirnir skoruðu aðeins sjö stig í leikhlutanum á meðan heimakonur settu niður 24 stig. Haukakonur leiddu sanngjarnt að honum loknum 44:27.
Þriðji leikhluti fór eins af stað og virtist ekkert benda til þess að Valskonur ætluðu að koma sér inn í þennan leik aftur. Þær breyttu þó aðeins til og fóru að spila mun ákafari vörn og fengu nokkur auðveld stig eftir að hafa stolið boltanum af heimakonum. Staðan að loknum þriðja leikhluta, 57:45, Haukakonum í vil.
Valskonur byrjuðu fjórða leikhluta af miklum krafti, stálu boltanum og Kiana Johnson setti niður þrist, kom muninum niður í níu stig. Það setti tóninn því gestirnir voru mun betri og ákveðnari í síðasta leikhlutanum. Þær minnkuðu forystuna jafnt og þétt og komust svo yfir þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir þegar Kiana Johnson setti niður tvist, 62:64. Keira Breeanne Robinson jafnaði leikinn þegar 47 sekúndur vor á klukkunni, meira var ekki skorað og framlenging staðreynd.
Valskonur höfðu frumkvæðið í framlengingunni og komust þremur stigum yfir, 67:70, þegar Kiana Johnson setti niður fallega körfu. Haukakonur komust svo í 71:70 þegar 12,8 sekúndur lifðu leiks, þar var að verki Keira Breeanne Robinson. Valskonur tóku leikhlé og teiknuðu upp lokasóknina. Embla Kristínardóttir þrumaði niður þrist úr horninu og kom gestunum aftur yfir 71:73.
Keira Breeanne Robinson átti svo möguleika á að jafna leikinn af vítalínunni þegar 1,1 sekúnda var eftir af leiknum en hún klikkaði á báðum vítaskotunum og sigur Valskvenna því staðreynd.
Hjá heimakonum var Keira Breeanne Johnson atkvæðamest og skilaði hún tvöfaldri tvennu, skoraði 29 stig og tók 12 fráköst.
Næsti leikur í seríunni verður á Hlíðarenda á fimmtudagskvöld og ef eitthvað er að marka leikinn í kvöld þá má búast við frábærum körfuboltaleik.
Gangur leiksins:: 4:4, 10:9, 12:9,<span> </span><strong>20:20</strong>, 29:20, 35:23, 40:25,<span> </span><strong>44:27</strong>, 47:33, 54:34, 54:41,<span> </span><strong>57:45</strong>, 59:50, 61:58, 62:62,<span> </span><strong>64:64</strong>, 67:68,<span> </span><strong>71:73</strong>.
<strong>Haukar</strong>: Keira Breeanne Robinson 29/12 fráköst/5 stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 10, Eva Margrét Kristjánsdóttir 10/10 fráköst, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 9/15 fráköst/4 varin skot, Sólrún Inga Gísladóttir 6/9 fráköst, Lovísa Björt Henningsdóttir 5, Jana Falsdóttir 2.
<strong>Fráköst</strong>: 39 í vörn, 16 í sókn.
<strong>Valur</strong>: Kiana Johnson 30/11 fráköst/5 stoðsendingar/7 stolnir, Ásta Júlía Grímsdóttir 14/12 fráköst, Embla Kristínardóttir 9, Hildur Björg Kjartansdóttir 8/11 fráköst, Sara Líf Boama 5, Simone Gabriel Costa 5/6 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 2.
<strong>Fráköst</strong>: 33 í vörn, 11 í sókn.
<strong>Dómarar</strong>: Sigmundur Már Herbertsson, Bjarki Þór Davíðsson, Bjarni Rúnar Lárusson.
<strong>Áhorfendur</strong>: 312