Karina Konstantinova var stigahæst hjá Keflavík þegar liðið tók á móti Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Keflavík í kvöld.
Leiknum lauk með tíu stiga sigri Keflavíkur, 74:64, en Konstantinova skoraði 21 stig, tók átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar.
Bæði lið sýndu í upphafi smá úrslitakeppnishroll og var lítið skorað. Mistök og slakar ákvarðanir á meðan liðin voru að máta sig þessar fyrstu mínútur úrslitakeppninnar. En svo hófust liðin að hamra stálið hjá hvort öðru og skiptust á forystunni í leiknum nánast óteljandi.
Jafnt var á með liðunum á flestum tölum eða allt þar til að Allyah Collier leikmaður Njarðvíkur meiddist í upphafi fjórða leikhluta. Þetta varð að vendipunkti leiksins. Keflavík nýtti sér þetta til fulls og áður en yfir lauk var liðið komið í tíu stiga forystu og eftir þetta högg náði Njarðvík aldrei að jafna sig að fullu.
Óvíst er með meiðsli Collier en hún virtist hafa stigið illa niður og meitt sig á hné. Það þarf ekki að fullyrða um mikilvægi Collier í liði Njarðvíkur og ef meiðsli hennar eru slík að hún spili ekki meira þá þyngist róðurinn ískyggilega fyrir meistara Njarðvíkur. Til að undirstrika þetta þá missti Njarðvík alla trú á sínum leik þegar Collier fór af velli.
Keflavík gerði svo sem bara nákvæmlega það sem liðið þurfti að gera. En stóran plús fær Emilía Ósk Gunnarsdóttir sem spilaði fantagóða vörn á Raquel Laneiro, annan af lykilleikmönnum Njarðvíkur, en sú portúgalska hafði farið sterkt af stað í fyrri hálfleik. Staðan var því 1:0 fyrir Keflavík í seríunni og næsti leikur í Njarðvík verður á fimmtudag.
Gangur leiksins: 5:2, 13:6, 16:10, 20:17, 20:25, 27:25, 30:33, 38:37, 42:44, 47:47, 51:52, 58:54, 60:58, 67:60, 69:62, 74:64, 74:64, 74:64.
Keflavík: Karina Denislavova Konstantinova 21/8 fráköst/7 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 19/6 fráköst, Daniela Wallen Morillo 17/13 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 6, Agnes María Svansdóttir 4, Ólöf Rún Óladóttir 3, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, Anna Lára Vignisdóttir 2.
Fráköst: 22 í vörn, 11 í sókn.
Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 26/13 fráköst, Raquel De Lima Viegas Laneiro 13/5 fráköst, Isabella Ósk Sigurðardóttir 10/11 fráköst, Lavinia Joao Gomes Da Silva 7/9 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Erna Hákonardóttir 3.
Fráköst: 22 í vörn, 17 í sókn.
Dómarar: Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Ingi Björn Jónsson.
Áhorfendur: 478.