Fyrstu leikirnir í undanúrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna fara fram í kvöld.
Bikarmeistarar Hauka og Valur munu leiða saman hesta sína í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði klukkan 18.15 og síðar um kvöldið, klukkan 20.15, mætast deildarmeistarar Keflavíkur og ríkjandi Íslandsmeistarar Njarðvíkur í Keflavík.
Í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni, á tímabilinu voru Haukar með yfirhöndina í fjórum leikjum liðsins gegn Val. Haukar unnu þrjá leiki og Valur einn.
Sömu sögu er að segja af Keflavík í fjórum leikjum sínum gegn Njarðvík, þar sem Keflvíkingar unnu þrjá þeirra og Njarðvík einn.
Auk þess hafði Keflavík betur í mögnuðum tvíframlengdum leik gegn Njarðvík í átta liða úrslitum VÍS-bikarsins.
Þegar í úrslitakeppnina er komið skipta fyrri viðureignir hins vegar litlu máli og því er von á æsispennandi viðureignum í báðum tilfellum.