Nicolas Richotti var stigahæstur hjá Njarðvík þegar liðið tók á móti Grindavík í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld.
Leiknum lauk með þriggja stiga sigri Njarðvíkur, 87:84, en Richotti skoraði 29 stig, tók eitt frákast og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum.
Strax í hálfleik höfðu Njarðvíkingar komið sér í mjög þægilegt 17 stiga forskot. Grimmir Grindvíkingar neituðu hins vegar með öllu að játa sig sigraða og klóruðu sig hægt en örugglega aftur inn í leikinn. Njarðvíkingar náðu að merja á lokakaflanum sigurinn mikilvæga 87:84.
Það leit út fyrir á löngum köflum að heimamenn í Njarðvík myndu eiga sér nokkuð náðugan dag. Þrátt fyrir á köflum í fyrri hálfleik að vera fremur kærulausir í sínum leik leiddu þeir þá með 17 stigum. Það var algert þrot og lánleysi Grindvíkinga í fyrri hálfleik sem olli þessum yfirburðum Njarðvíkinga ásamt þeim þunga í sóknarleik heimamanna sem skoruðu 50 stig á fyrstu 20 mínútum leiksins.
Í seinni hálfleik virtust Njarðvíkingar ætla sér að hanga á þessari forystu sinni því leikur þeirra gersamlega umbreyttist. Þeir hægðu svo duglega á sínum leik að varnarleikur Grindvíkinga sá um afganginn. Hægt og bítandi fóru svo gestirnir að naga niður forskot heimamanna. Það tók góðan tíma, eða allt þangað til á lokaspretti leiksins þegar munurinn var kominn niður í tvö stig.
Njarðvíkingar héldu út á vítalínunni þrátt fyrir að brenna af þremur slíkum á ögurstundu. Stálheppnir Njarðvíkingar héldu frá leiknum með sigurinn en hann var langt frá því að vera sannfærandi. Menn spyrja sig eftir leik, eru þessar gömlu lappir Njarðvíkinga aðeins að duga í 20 mínútur?
Grindvíkingar eru komnir með blóðbragð í munn eftir kvöldið og má búast við þeim dýrvitlausum í næsta leik þar sem þeir fresta þess að jafna einvígið. Hjá báðum liðum vantaði lykilmenn. Nacho Martín sat í borgaralegum klæðum fyrir Njarðvíkinga meiddur en hjá Grindavík vantaði Zoran Virkic sem var frá vegna persónulegra mála.
Gangur leiksins: 9:6, 19:12, 22:18, 31:23, 34:23, 38:25, 40:28, 50:33, 53:33, 55:41, 62:50, 67:52, 70:57, 78:64, 82:72, 87:84.
Njarðvík: Nicolas Richotti 29, Dedrick Deon Basile 16/4 fráköst, Mario Matasovic 15/8 fráköst, Lisandro Rasio 13/15 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 8, Haukur Helgi Pálsson 6/7 fráköst.
Fráköst: 25 í vörn, 11 í sókn.
Grindavík: Ólafur Ólafsson 27/11 fráköst, Bragi Guðmundsson 19, Gkay Gaios Skordilis 16/14 fráköst, Damier Erik Pitts 13/4 fráköst/11 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 5, Valdas Vasylius 4.
Fráköst: 26 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Bjarki Þór Davíðsson, Jón Þór Eyþórsson.
Áhorfendur: 415.