Tindastóll vann eftir framlengda spennu

Sigurður Gunnar Þorsteinsson úr Tindastóli og Igor Maric, Keflavík, í …
Sigurður Gunnar Þorsteinsson úr Tindastóli og Igor Maric, Keflavík, í baráttunni undir körfunni í kvöld. mbl.is/Skúli

Tindastóll komst í kvöld í 1:0 í einvígi sínu gegn Keflavík í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með 114:107-sigri á útivelli í framlengdum leik í kvöld. 

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 97:97, eftir mikla spennu, og því varð að framlengja. Að lokum voru gestirnir úr Skagafirði sterkari í framlengingunni. 

Dominykas Milka skoraði 26 fyrir Keflavík og tók 12 fráköst. Eric Ayala og Halldór Garðar Hermannsson skoruðu 20 stig hvor. Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 26 stig fyrir Tindastól og Adomas Drungilas 22. 

„Pavel er að gefa okkur þetta bullandi sjálfstraust sem við vorum með,“ sagði Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls, eftir sigurinn. 

Tilefnið var spurning blaðamanns um breytinguna á liðinu við komu Pavel Ermolinski í þjálfarastöðu liðsins. Óhætt er að taka undir þetta hjá Sigtryggi Arnari því þetta Tindastólslið er komið í úrslitakeppnisgír líkt og í fyrra og verða illviðráðanlegt í þessari seríu. 

Það tók hinsvegar framlengingu til að knýja fram úrslit kvöldsins en ólseigir Keflvíkingar neituðu að gefast upp þrátt fyrir að vindurinn stæði ekki í seglin hjá þeim megnið af seinni hálfleik.

Í fjarverðu Harðar Axels Vilhjálmssonar hjá Keflavík tók Halldór Garðar Hermannsson við keflinum og stóð vaktina nokkuð vel í kvöld. Kappinn skilaði 20 stigum í kvöld og hafði þetta að segja eftir leik.

„Við söknuðum auðvitað Harðar, hann bindur vörnina svolítið saman hjá okkur og það sést, við fáum á okkur 114 stig í kvöld og það er ekki eitthvað sem við stöndum fyrir." sagði Halldór.

En leikurinn í heild sinni stórskemmtilegur þar sem að liðin skiptust á að vera yfir.  Áhlaup Tindastóls í seinni hálfleik vó þungt og Keflvíkingar við það að brotna en þeir aðeins bognuðu. Komu tilbaka, sýndu gríðarlegan karakter og komu leiknum í framlengingu. Þrátt fyrir að vera á heimavelli þá voru veðbankarnir að setja sitt á Tindastól. Og svo sem ekkert óvænt þar í raun.

Keflvíkingar hafa ekki verið að spila vel undir lok móts, Hörður Axel í banni og Tindstólsmenn hafa verið vaxandi nokkuð hratt nú í undanfari úrslitakeppninar.  En leikurinn í kvöld sýnir okkur að þetta verður hörkurimma. Fyrsta skákin fór til þeirra Skagfirðinga en nú verður fróðlegt að fylgjast með hvað verður í næsta leik liðanna.  

Keflavík - Tindastóll 107:114

Blue-höllin, Subway deild karla, 05. apríl 2023.

Gangur leiksins:: 6:2, 12:8, 18:12, 22:17, 30:26, 37:34, 41:43, 44:50, 50:56, 55:64, 65:69, 67:77, 72:80, 79:87, 86:92, 97:97, 101:105, 107:114.

Keflavík: Dominykas Milka 26/12 fráköst/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 20/8 stoðsendingar, Eric Ayala 20/8 fráköst, Igor Maric 16/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ingi Styrmisson 11/7 fráköst, David Okeke 9, Jaka Brodnik 2, Valur Orri Valsson 2/7 stoðsendingar, Magnús Pétursson 1.

Fráköst: 31 í vörn, 14 í sókn.

Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 26/7 stoðsendingar, Adomas Drungilas 22/10 fráköst, Antonio Keyshawn Woods 21/9 stoðsendingar, Taiwo Hassan Badmus 19/8 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 8/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Ágústsson 7, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6, Davis Geks 5.

Fráköst: 25 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 568

Keflavík 107:114 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert