KR samdi við tíu leikmenn

Veigar Áki Hlynsson heldur kyrru fyrir í Vesturbænum.
Veigar Áki Hlynsson heldur kyrru fyrir í Vesturbænum. Ljósmynd/KR

Körfuknattleiksdeild KR hefur staðið í ströngu að undanförnu þar sem alls tíu leikmenn hafa skrifað undir samning við karlaliðið. Allir eru þeir uppaldir KR-ingar.

Karlalið KR féll úr úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins á nýafstöðnu tímabili og leikur því í 1. deild á því næsta.

Veigar Áki Hlynsson, sem er 22 ára gamall, var lykilmaður hjá liðinu í vetur og hefur ákveðið að taka slaginn með uppeldisfélaginu í næstefstu deild. Samdi hann til tveggja ára.

Gunnar Ingi Harðarson hefur einnig skrifað undir framlengingu á samningi sínum eftir að hafa gengið aftur til liðs við uppeldisfélagið um áramótin.

Þá snúa tveir uppaldir KR-ingar aftur eftir að hafa leikið með Ármanni í 1. deildinni undanfarin ár. Þetta eru þeir Arnór Hermannsson og Illugi Steingrímsson.

Arnór varð Íslandsmeistari með KR á árunum 2016 til 2018 og bikarmeistari árin 2016 og 2017 og Illugi varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2015.

Auk þeirra hafa sex ungir og efnilegir KR-ingar sem voru viðloðnir aðalliðið í vetur skrifað undir nýja tveggja ára samninga.

Þeir eru Lars Erik Bragason, Hallgrímur Árni Þrastarson, Ólafur Geir Þorbjarnarson, Gísli Þór Oddsteinsson, Mikael Snorri Ingimarsson og Emil Richter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert