Körfuknattleiksdeild KR hefur staðið í ströngu að undanförnu þar sem alls tíu leikmenn hafa skrifað undir samning við karlaliðið. Allir eru þeir uppaldir KR-ingar.
Karlalið KR féll úr úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins á nýafstöðnu tímabili og leikur því í 1. deild á því næsta.
Veigar Áki Hlynsson, sem er 22 ára gamall, var lykilmaður hjá liðinu í vetur og hefur ákveðið að taka slaginn með uppeldisfélaginu í næstefstu deild. Samdi hann til tveggja ára.
Gunnar Ingi Harðarson hefur einnig skrifað undir framlengingu á samningi sínum eftir að hafa gengið aftur til liðs við uppeldisfélagið um áramótin.
Þá snúa tveir uppaldir KR-ingar aftur eftir að hafa leikið með Ármanni í 1. deildinni undanfarin ár. Þetta eru þeir Arnór Hermannsson og Illugi Steingrímsson.
Arnór varð Íslandsmeistari með KR á árunum 2016 til 2018 og bikarmeistari árin 2016 og 2017 og Illugi varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2015.
Auk þeirra hafa sex ungir og efnilegir KR-ingar sem voru viðloðnir aðalliðið í vetur skrifað undir nýja tveggja ára samninga.
Þeir eru Lars Erik Bragason, Hallgrímur Árni Þrastarson, Ólafur Geir Þorbjarnarson, Gísli Þór Oddsteinsson, Mikael Snorri Ingimarsson og Emil Richter.