Skoraði rúmlega helming stiganna

Joel Embiid átti ótrúlegan leik í nótt.
Joel Embiid átti ótrúlegan leik í nótt. AFP/Tim Nwachukwu

Kamerúninn magnaði Joel Embiid átti ótrúlegan leik fyrir Philadelphia 76ers þegar liðin vann gífurlega sterkan sigur á Boston Celtics, 103:101, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Embiid gerði sér lítið fyrir og skoraði rétt rúmlega helming stiga sinna manna, 52, og bætti við 13 fráköstum og sex stoðsendingum.

Liðsfélagi hans James Harden bætti við 20 stigum, fimm fráköstum og tíu stoðsendingum.

Hjá Boston var Derrick White stigahæstur með 26 stig og sjö fráköst. Jayson Tatum hafði óvenju hægt um sig en skoraði þó 19 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Bæði lið hafa fyrir nokkru tryggt sér sæti í úrslitakeppni í austurdeild NBA-deildarinnar og halda sætum sínum þegar þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Boston er í öðru sæti og Philadelphia í því þriðja.

Í vesturdeildinni vann LA Lakers mikilvægan sigur á Utah Jazz, 135:133, eftir framlengingu þar sem gamla brýnið LeBron James fór á kostum.

James skoraði 37 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar. Austin Reaves bætti við 28 stigum og sex stoðsendingum auk þess sem Anthony Davis skoraði 21 stig, tók 14 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Stigahæstir hjá Utah voru Kelly Olynyk og Talen Horton-Tucker, báðir með 23 stig. Olynyk bætti við sjö fráköstum og sjö stoðsendingum og Horton-Tucker var einnig með sjö stoðsendingar.

Lakers er nú í sjöunda sæti austurdeildarinnar, hársbreidd frá nágrönnum sínum og erkifjendum í LA Clippers í sjötta sætinu, síðasta sætinu sem gefur beint sæti í úrslitakeppni deildarinnar, en liðin í sjöunda til tíunda sæti fara í umspil um tvö laus sæti í keppninni.

Vonir Utah, sem saknaði Finnans Lauris Markkanens sárt í nótt, um að ná umspilssæti fara þverrandi þar sem liðið er í 12. sæti og aðeins þrjár umferðir eftir.

Donovan Mitchell var þá stórkostlegur í 117:113-sigri Cleveland Cavaliers á Orlando Magic.

Mitchell skoraði 43 stig fyrir Cleveland, sem hefur þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppni austurdeildarinnar.

Öll úrslit næturinnar:

Philadelphia – Boston 103:101

Utah – LA Lakers 133:135 (frl.)

Orlando – Cleveland 113:117

Charlotte – Toronto 100:120

Detroit – Miami 105:118

Washington – Milwaukee 128:140

Brooklyn – Minnesota 102:107

Chicago – Atlanta 105:123

Houston – Denver 124:103

Memphis – Portland 119:109

New Orleans – Sacramento 103:121

Golden State – Oklahoma 136:125

Phoenix – San Antonio 115:94

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert