Það hræddi okkur ekkert

Darwin Davis Jr. sækir að körfu Þórsara.
Darwin Davis Jr. sækir að körfu Þórsara. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Allir stóðu sig fáránlega vel,“ sagði Hilmar Smári Henningsson eftir sjö stiga sigur Hauka á Þór Þorlákshöfn, 90:83, í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar í körfubolta í Ólafssal í kvöld. 

Hilmar átti frábæran leik fyrir Haukaliðið og setti 32 stig. Ásamt því tók hann tvö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Fyrst og fremst, hvernig er tilfinningin?

„Hún er mjög góð, þetta var 100 prósent það sem maður stefndi á fyrir leik að nýta heimavallarréttinn og sækja sigur í fyrsta leik. 1:0 var markmiðið þegar við vöknuðum í morgun og 1:0 er staðan núna.“

Þór Þorlákshöfn er búið að vera heitasta lið deildarinnar undanfarið og unnið sjö af síðustu átta leikjum sínum. Í leiðinni klifruðu Þórsarar úr fallsæti upp í það sjötta.  

„Þórsararnir eru búnir að spila mjög vel og vera eitt heitasta liðið í deildinni. En við höfum trú á okkar leikplani og mér fannst við ná að framkvæma það vel. 

Við vorum að fara eftir leikplaninu okkar og héldum einbeitingu í svona 37. mínútur myndi ég segja, okkur vantaði einhverjar þrjár mínútur þar sem við misstum þetta aðeins niður. 

Nú verðum við bara að halda haus og halda áfram, við vitum hversu góðir við erum og því hræddi það okkur ekkert að Þór var talið heitasta liðið í deildinni áður en við komum inn í þennan leik.“

Haukar misstu Þór aðeins einu sinni fyrir ofan sig í leiknum, í öðrum leikhluta. Hilmari fannst liðið vera með stjórn á leiknum nánast allan leikinn, eða í 37. mínútur.  

„Mér leið eins og við misstum aldrei stjórn á leiknum þótt þeir náðu góðum köflum og voru að hitta í körfuna. Mér fannst við halda einbeitingu og við héldum okkur við leikplanið, aftur í svona 37. mínútur. Þannig það er gífurlega mikilvægt í svona leik þar sem það eru mikil læti og mikið um að vera. 

Allir stóðu sig með prýði

Hilmar sagði að það sé alltaf gaman að spila vel, en þrátt fyrir að hann hafi sett stigin á töfluna þá hafi aðrir gengst jafn mikilvægu hlutverki annarsstaðar á vellinum.

„Ég vona helst að ég gaf liðinu mikið, það gefur mér í rauninni ekki mikið en það er auðvitað gaman að eiga góðan leik. Þótt ég hafi verið að setja stigin á töfluna þá leið mér eins og allir leikmennirnir sem komu inn á hjá okkur, sérstaklega eftir að Giga fór af velli, stóðu sig fáránlega vel í vörninni og létu boltann ganga vel.“

Lykilmaður Hauka Norbertas Giga meiddist strax á fyrstu mínútu leiksins og ekki sást til hans aftur. Hilmar sagðist ekki vita stöðuna á honum en vonaðist til að það væri í lagi með hann.

„Ég hef ekki hugmynd hver staðan er á Giga. Ég er ekkert búinn að fara upp í klefa þannig ég veit ekkert um stöðuna á honum. Það er verið að kíkja á hann og við vonumst eftir því að hann verði kominn á gólfið fyrir næsta leik.“

Hverju megum við búast við í leiknum á laugardaginn kemur? 

Þessi úrslitakeppni er svolítill skákleikur. Það verða líklegast einhverjar breytingar hjá báðum liðum. Ég get allavega lofað þér því að miðað við hvernig leikurinn var í dag þá verður þetta drulluskemmtilegt,“ sagði Hilmar að lokum en annar leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á laugardaginn kemur. 

Hilmar Smári Henningsson treður í körfu Þórs fyrr á tímabilinu.
Hilmar Smári Henningsson treður í körfu Þórs fyrr á tímabilinu. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert