Tindastóll komst í kvöld í 1:0 í einvígi sínu gegn Keflavík í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með 114:107-sigri á útivelli í framlengdum leik í kvöld.
Staðan eftir venjulegan leiktíma var 97:97, eftir mikla spennu, og því varð að framlengja. Að lokum voru gestirnir úr Skagafirði sterkari í framlengingunni.
„Pavel er að gefa okkur þetta bullandi sjálfstraust sem við vorum með,“ sagði Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls, eftir sigurinn.
Tilefnið var spurning blaðamanns um breytinguna á liðinu við komu Pavel Ermolinski í þjálfarastöðu liðsins. Óhætt er að taka undir þetta hjá Sigtryggi Arnari því þetta Tindastólslið er komið í úrslitakeppnisgír líkt og í fyrra og verða illviðráðanlegt í þessari seríu.
Það tók hinsvegar framlengingu til að knýja fram úrslit kvöldsins en ólseigir Keflvíkingar neituðu að gefast upp þrátt fyrir að vindurinn stæði ekki í seglin hjá þeim megnið af seinni hálfleik.
Í fjarverðu Harðar Axels Vilhjálmssonar hjá Keflavík tók Halldór Garðar Hermannsson við keflinum og stóð vaktina nokkuð vel í kvöld. Kappinn skilaði 20 stigum í kvöld og hafði þetta að segja eftir leik.
„Við söknuðum auðvitað Harðar, hann bindur vörnina svolítið saman hjá okkur og það sést, við fáum á okkur 114 stig í kvöld og það er ekki eitthvað sem við stöndum fyrir." sagði Halldór.
En leikurinn í heild sinni stórskemmtilegur þar sem að liðin skiptust á að vera yfir. Áhlaup Tindastóls í seinni hálfleik vó þungt og Keflvíkingar við það að brotna en þeir aðeins bognuðu. Komu tilbaka, sýndu gríðarlegan karakter og komu leiknum í framlengingu. Þrátt fyrir að vera á heimavelli þá voru veðbankarnir að setja sitt á Tindastól. Og svo sem ekkert óvænt þar í raun.
Keflvíkingar hafa ekki verið að spila vel undir lok móts, Hörður Axel í banni og Tindstólsmenn hafa verið vaxandi nokkuð hratt nú í undanfari úrslitakeppninar. En leikurinn í kvöld sýnir okkur að þetta verður hörkurimma. Fyrsta skákin fór til þeirra Skagfirðinga en nú verður fróðlegt að fylgjast með hvað verður í næsta leik liðanna.
Blue-höllin, Subway deild karla, 05. apríl 2023.
Gangur leiksins:: 6:2, 12:8, 18:12, 22:17, 30:26, 37:34, 41:43, 44:50, 50:56, 55:64, 65:69, 67:77, 72:80, 79:87, 86:92, 97:97, 101:105, 107:114.
Keflavík: Dominykas Milka 26/12 fráköst/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 20/8 stoðsendingar, Eric Ayala 20/8 fráköst, Igor Maric 16/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ingi Styrmisson 11/7 fráköst, David Okeke 9, Jaka Brodnik 2, Valur Orri Valsson 2/7 stoðsendingar, Magnús Pétursson 1.
Fráköst: 31 í vörn, 14 í sókn.
Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 26/7 stoðsendingar, Adomas Drungilas 22/10 fráköst, Antonio Keyshawn Woods 21/9 stoðsendingar, Taiwo Hassan Badmus 19/8 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 8/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Ágústsson 7, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6, Davis Geks 5.
Fráköst: 25 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Gunnlaugur Briem.
Áhorfendur: 568