Við kvörtuðum of mikið

Jordan Semple sækir að Hafnfirðingum í kvöld.
Jordan Semple sækir að Hafnfirðingum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það vantaði vilja,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, í samtali við mbl.is eftir tap, 83:90, fyrir Haukum í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppni karla í körfubolta í Ólafssal í kvöld.

„Við hefðum þurft að klára vörnina betur fannst mér, við leyfðum þeim að komast á bragðið í leiknum með því að taka fullt af sóknarfráköstum og upp úr því fengu þeir opin skot, hittu og hitnuðu. 

Alltaf þegar við nörtuðum í hælana á þeim og fórum að gera heiðarlega tilraun til að komast aftur inn í leikinn þá gátu þeir sett góð skot því þeir voru orðnir heitir.“

Hvað fannst þér helst vanta í dag? 

„Mér fannst kannski vilji vera það sem vantaði. Vilji að ná í boltann, það er það sem við þurfum að bæta. Vilji og stjórna því sem við getum stjórnað. Við vorum aðeins of mikið að kvarta. 

Haukarnir náðu fyrsta högginu þannig við þurfum að koma af krafti í næsta leik.“

Getum við kallað það kæruleysi? 

„Gæti alveg verið eitthvað kæruleysi. Við erum búnir að koma okkur í þessa stöðu, sjötta sæti, því við erum búnir að vera hungraðasta liðið á landinu og við getum ekki hætt því núna. 

Menn mega ekki gleyma því að við vorum í fallsæti og erum búnir að vera að berjast fyrir lífi okkar í deildinni. Við erum búnir að spila ótrúlega vel og liðið er búið að vera vel smurt. Ég bara veit það að leikmennirnir eiga eftir að bregðast vel við þessu tapi,“ sagði Lárus að lokum en næsti leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn á laugardaginn kemur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert