Njarðvík og Keflavík mættust í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik í kvöld. Risa fréttir fyrir kvöldið voru þær að Allyah Collier, einn allra besti leikmaður mótsins í ár og síðasta ár hefur lokið keppni með Njarðvík vegna meiðsla á hné.
Þessar fréttir settu ákveðinn tón fyrir kvöldið. Flestir ef ekki allir bjuggust við því að Keflavík myndu jafnvel eiga nokkuð náðugt kvöld en sú varð svo sannarlega ekki reyndin. Njarðvík augljóslega þjöppuðu sér saman og á endanum höfðu gríðarlega sterkan 89:85 sigur í ótrúlega skemmtilegum leik sem bauð uppá nánast allt nema troðslur.
Vanmat mátti líkast til glitta í hjá Keflavík þetta kvöldið þar sem á tímabili í fyrri hálfleik virtust þær áhugalausar á verkefninu ef undan er skilin Daniella Wallen, þeirra erlendi leikmaður.
Njarðvíkingar nýttu sér þetta til fulls og leiddu með fjórum stigum eftir 20 mínútur. Í þriðja leikhluta hrukku skyttur Keflavíkur í gang og 11:0 áhlaup þeirra á þessum kafla hefði líkast til brotið flest lið á bak aftur.
En enn og aftur sýndu Njarðvík kjark, þor og sjálfstraust þegar þær komu til baka á nokkuð skömmum tíma. Þær hættu hins vegar ekki þar heldur þegar best lét komust þær í 11 stiga forystu þegar um 5 mínútur voru eftir.
En spilað var á fáum mönnum hjá Njarðvík og þær virtust þreyttar undir lokin. Keflvíkingar pressuðu stíft og hófu að naga niður muninn hægt en örugglega. Njarðvík náði hinsvegar að halda haus á ögurstundu og lönduðu sem fyrr segir sigrinum mikilvæga.
Það má eiginlega segja að Keflavík hafi mætt allt öðru Njarðvíkurliði en því sem inniheldur Aliyah Collier. Nú þurftu leikmenn að treysta svolítið á sjálfan sig og sitt eigið spil. Það gekk fullkomlega megnið af kvöldinu og liðið sýndi að þær geta vel spilað með þeim bestu án Collier. Sem fyrr segir mátti alveg skynja smá vanmat hjá Keflavíkurliðinu en ofaní það voru þær ekki tilbúnar í þetta Njarðvíkurlið í kvöld. Einvígið færist nú aftur yfir til Keflavíkur þar sem bæði lið hafa tekið einn sigur í einvíginu.
Raquel Laneiro var atkvæðamest í liði Njarðvíkur með 21 stig, sjö fráköst og 11 stoðsendingar. Isabella Ósk Sigurðardóttir var einnig mjög góð fyrir Njarðvíkinga með 20 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar.
Daniela Wallen var frábær fyrir Keflvíkinga með 32 stig, 16 fráköst og tvær stoðsendingar.
Liðin mætast næst á sunnudaginn kemur.
Gangur leiksins:: 5:2, 8:7, 15:16, 20:18, 22:20, 24:22, 33:28, 38:35, 42:43, 47:51, 54:54, 63:57, 70:67, 78:68, 83:74, 89:85.
Njarðvík: Raquel De Lima Viegas Laneiro 21/7 fráköst/11 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 20/12 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 15/6 fráköst, Lavinia Joao Gomes Da Silva 15/9 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 10, Erna Hákonardóttir 8.
Fráköst: 30 í vörn, 7 í sókn.
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 32/16 fráköst, Agnes María Svansdóttir 14/4 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 11, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9, Birna Valgerður Benónýsdóttir 9/4 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 8/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ólöf Rún Óladóttir 2.
Fráköst: 19 í vörn, 12 í sókn.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem, Jakob Árni Ísleifsson.
Áhorfendur: 203