Kristinn átti stórleik í Belgíu

Kristinn Pálsson lék mjög vel með Aris í kvöld.
Kristinn Pálsson lék mjög vel með Aris í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristinn Pálsson landsliðsmaður í körfuknattleik átti sannkallaðan stórleik með sínu hollenska liði Aris Leeuwarden í kvöld þegar það sótti Spirou Charleroi heim til Belgíu í sameiginlegri deild þjóðanna, BNXT-deildinni.

Kristinn skoraði 23 stig fyrir Aris, átti sex stoðsendingar og tók þrjú fráköst en hann spilaði í tæpar 30 mínútur.

Spirou knúði fram sigur eftir æsispennandi lokakafla, 83:78, þar sem Kristinn átti tvær þriggja stiga tilraunir sem geiguðu í stöðunni 81:78. Hann var samt með 50 prósent nýtingu í þriggja stiga skotum í leiknum.

Aris var í efri hlutanum í Hollandi í fyrri hluta keppninnar þar sem leikið er í hvoru landi fyrir sig. Í úrslitakeppninni þar sem fimm bestu liðin frá hvorri þjóð mætast í tíu liða deild hefur liðinu hins vegar gengið illa og er nú búið að tapa sex fyrstu leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert