Svona eru íþróttir

Armani Moore sækir að Hjálmari Stefánssyni.
Armani Moore sækir að Hjálmari Stefánssyni. mbl.is/Árni Sæberg

„Valsliðið var betra í dag,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 22 stiga tap liðsins gegn Val, 73:95, í 8-liða úrslitum úrslitakeppni karla í körfuknattleik í Garðabænum í dag. 

Stjarn­an vann fyrsta leik liðanna á Hlíðar­enda, 94:89, og það voru óvænt úr­slit því Vals­menn unnu deild­ina en Stjarn­an náði naum­lega átt­unda sæt­inu.

Spurður að því hvað gekk ekki upp í dag sagði Arnar það vera ansi margt.

„Það var ansi margt, Þeir fóru að skora full auðveldlega á okkur, varnarleikurinn okkar var gloppóttur og Pablo Betrone í þeirra liði var frábær. Valsmenn fundu allar lausnir sem þeir voru að leita af og þeir eiga virðingu skilið fyrir það. 

Valsliðið var betra í dag, við vorum betri síðast. Svona eru íþróttir, það sveiflast oft mjög hratt í þessu og við ætlum að reyna að sveifla þessu til baka núna á þriðjudaginn.“

Hvernig leggst framhaldið í ykkur?

„Við erum í úrslitakeppninni, þetta er ógeðslega gaman. Það er ekki gaman að tapa leik en við töpuðum einum leik, þetta er ekki verra en það. 

Við vitum alveg við hverja við erum að keppa, þeir eru meistarar í öllu sem hægt er að vera meistarar í og pressan er á þeim að klára þetta. Þannig við komum bara léttir inn og sjáum hvort við getum strítt þeim,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is en næsti leikur liðanna er á Hlíðarenda á þriðjudaginn kemur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert