„Við settum tóninn strax,“ sagði Valsarinn Hjálmar Stefánsson eftir sannfærandi sigur Íslandsmeistaranna á Stjörnunni, 95:73, í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar í körfubolta í Garðabænum í kvöld.
Stjarnan vann fyrsta leik liðanna á Hlíðarenda, 94:89, og það voru óvænt úrslit því Valsmenn unnu deildina en Stjarnan náði naumlega áttunda sætinu. Valsmenn svöruðu hinsvegar fyrir sig í dag og Hjálmar segir tilfinninguna góða eftir svona sigur en hrósaði einnig andstæðingnum.
„Tilfinningin er góð, en það er mikið eftir. Eins og allir vita þá er úrslitakeppnin algjörlega nýtt mót, allir byrja á sama stað þannig það skiptir ekki máli hvort að liðið sé í fyrsta eða áttunda sæti. Þetta eru Stjörnumenn, þeir eru ótrúlega vel drillaðir og góðir.
Við ákváðum að byrja af krafti núna og setja tóninn strax, eitthvað sem við gerðum ekki í síðasta leik. Það gaf okkur smá tíma til að anda en aftur er Stjarnan ótrúlega gott lið og getur saxað á hvaða forskot sem er. Þannig við þurftum að vera einbeittir allar fjörtíu mínúturnar.“
Mikill andi var í Valsliðinu allan leikinn og fögnuðu liðsmennirnir hverri körfu með miklum látum. Sú stemmning hefur skilað sér í góðri frammistöðu inn á vellinum.
„Jú stemmningin var mjög góð. Maður var auðvitað svekktur með tapið í fyrsta leiknum en það eru svo margir leikir að maður svekkir sig bara um kvöldið og svo er bara strax sett einbeiting á næsta leik.
Nú er það bara að fara að skoða myndbönd af leiknum, sjá hvað við getum lagað og vonandi komum við enn meira stemdir í næsta leik,“ sagði Hjálmar að lokum í samtali við mbl.is.