Þrír leikir voru á dagskrá í NBA-deildinni í körfubolta vestanhafs í gærkvöldi. Minnesota Timberwolves vann m.a. 151:131-sigur á útivelli gegn San Antonio Spurs.
Eins og lokatölurnar gefa til kynna var sóknarleikurinn í aðalhlutverki í Texas. Anthony Edwards skoraði 33 stig fyrir Minnesota og Julian Champangie 24 fyrir San Antonio.
Minnesota fer í umspil um sæti í úrslitakeppninni, en San Antonio endar í neðsta sæti Vesturdeildarinnar.
Los Angeles Clippers vann 136:125-heimasigur á Portland Trail Blazers. Kawhi Leonard skoraði 27 stig fyrir LA og Kevin Knox 30 fyrir Portland. Clippers fer í úrslitakeppnina, en Portland er úr leik.
Þá vann Utah Jazz 118:114-heimasigur á Denver Nuggets. Ochai Agbaji skoraði 28 stig fyrir Utah og Kentavious Caldwell-Pope 21 fyrir Denver. Denver er í toppsæti Vesturdeildarinnar, en Utah er úr leik.