„Haukarnir voru grimmari frá byrjun til enda og uppskáru eftir því. Þær voru miklu kraftmeiri í dag,“ sagði Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Vals í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir 77:93-tap fyrir Haukum í dag.
Með sigrinum minnkuðu Haukar muninn í 2:1 í undanúrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmótinu, en með sigri hefði Valur farið í úrslit. Haukarnir voru hins vegar betri í dag.
„Við þurfum að vera tilbúnari en þetta. Við vissum að þær myndu mæta brjálaðar til leiks. Við þurfum að skoða þetta og laga,“ sagði Ólafur.
Valur vann stórsigur í síðasta leik, en Haukar svöruðu með stórsigri í dag og voru miklar sveiflur á milli leikja, á milli sömu liða.
„Þetta eru tvö góð lið. Í síðasta leik náðum við taki á þeim og í þessum leik ná þær taki á okkur. Það er erfitt að segja hvers vegna þetta gerist, en svona er körfuboltinn,“ útskýrði þjálfarinn.
Hann hvíldi lykilmenn í seinni hálfleik, en ekki til að huga að fjórða leiknum á fimmtudaginn kemur.
„Ég var að reyna að finna einhverja blöndu sem var að virka. Ég ákvað að breyta aðeins til. Þær voru engan veginn tengdar, við hittum ekki úr opnum skotum. Ég er með djúpan bekk og ákvað að gera þetta svona núna,“ sagði Ólafur.