Njarðvík varð í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með 102:93-heimasigri á Grindavík í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitunum í kvöld.
Njarðvíkingar unnu einvígið 3:0 og sópuðu þar með grönnum sínum úr leik. Dedrick Basile skoraði 25 stig fyrir Njarðvík og Damier Pitts gerði 30 fyrir Grindavík.
Leikurinn sem slíkur var keimlíkur fyrsta leik liðanna í einvíginu þar sem Njarðvíkingar náðu upp góðu forskoti í upphafi leiks en í seinni hálfleik voru það Grindvíkingar sem voru betri aðilinn og hársbreidd frá því að stela sigrinum.
Þetta kvöldið voru í raun tvö atvik sem komu í veg fyrir þessa endurkomu gestanna úr Grindavík. Annars vegar fékk þjálfari liðsins tæknivillu fyrir munnsöfnuð þegar tæplega tvær mínútur voru eftir og til að toppa það var það Gkay Gaios sem náði ekki að halda aftur af skapi sínu þegar hann gaf Mario Matasovic högg í magann og var réttilega sendur í sturtu.
Á þessum tíma voru Grindvíkingar að spila nokkuð vel og munurinn fór niður í sex stig þegar best lét. Njarðvíkingar auðvitað þökkuðu fyrir sig og kláruðu dæmið á vítalínunni. Alveg óhætt að segja að þetta hafi verið verðskuldað hjá Njarðvíkingum þar sem þeir sannarlega voru betra liðið í kvöld en vissulega hættu merki á lofti með þessa miður góðu frammistöðu í seinni hálfleik og þá sérstaklega varnarmegin á vellinum.
Munaði mest um Lisandro Rasio sem virðist vaxa með hverjum leik sem hann spilar á Íslandi. Lisandro skilaði 21 stigi og 12 fráköstum í kvöld. Grindvíkingar virkuðu áhugalausir í fyrri hálfleik sem kom þeim enn og aftur í djúpa holu gegn Njarðvík og varð þeim í raun að falli í öllum þremur leikjunum.
„Við gerum vel að koma til baka en það tekur alltaf orku frá manni og þetta er erfitt,“ sagði Ólafur Ólafsson í samtali við mbl.is. Ólafur bætti við að hann myndi nú setjast niður með forráðamönnum liðsins en í viðtali mátti heyra að líkast til yrði hann áfram í Grindavík.
Ljónagryfjan, Subway deild karla, 11. apríl 2023.
Gangur leiksins: 7:4, 11:4, 22:8, 26:15, 35:17, 40:22, 47:29, 53:32, 55:40, 61:50, 69:55, 76:62, 84:70, 88:73, 92:85, 102:93.
Njarðvík: Dedrick Deon Basile 25/4 fráköst/5 stoðsendingar, Lisandro Rasio 21/12 fráköst, Mario Matasovic 20, Oddur Rúnar Kristjánsson 13, Jose Ignacio Martin Monzon 9/8 fráköst, Nicolas Richotti 7/5 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 5, Haukur Helgi Pálsson 2/4 fráköst.
Fráköst: 25 í vörn, 9 í sókn.
Grindavík: Damier Erik Pitts 30/5 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 18, Ólafur Ólafsson 14/4 fráköst, Zoran Vrkic 14, Gkay Gaios Skordilis 10/12 fráköst, Bragi Guðmundsson 5/4 fráköst, Nökkvi Már Nökkvason 2.
Fráköst: 18 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Jón Þór Eyþórsson.
Áhorfendur: 479.