Valur tók á móti Stjörnunni í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld. Leiknum lauk með sigri heimamanna, 96:89.
Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og höfðu frumkvæðið allan fyrsta leikhlutann. Kristófer Acox átti svakalega troðslu og kom Völsurum í 10:3 þegar fimm mínútur voru liðnar. Leikhlutinn leið og grimmdin var mun meiri hjá Hlíðarendapiltum og leiddu þeir að loknum fyrsta leikhluta, 22:15.
Allt annað var að sjá Stjörnumenn í öðrum leikhluta og var það fyrst og fremst grimmdin í varnarleik liðsins sem kom þeim aftur inn í leikinn. Júlíus Orri Ágústsson og Niels Gutenius fóru fyrir gestunum sóknarlega og komu þeim í fjögurra stiga forystu, 33:37, þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks. Valsarar komu til baka undir lok leikhlutans og leiddu þegar flautað var til hálfleiks, 51:48.
Valsarar misstu Kristófer Acox út af í hálfleik vegna meiðsla. Þrátt fyrir það þá héldu heimamenn frumkvæðinu í byrjun þriðja leikhluta. Kári Jónsson kom þeim fimm stigum yfir, 63:58, með fallegri körfu um miðbik leikhlutans. Þá náðu Stjörnumenn að loka á sóknir Valsara og komust yfir undir lok leikhlutans, 67:71, þegar Hlynur Bæringsson setti niður þriggja stiga skot.
Í fjórða leikhluta virtist allt líta út fyrir að gestirnir myndu sigra þennan leik. Þeir leiddu með tíu stigum, 72:82, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. En þá steig Kári Jónsson upp fyrir heimamenn og setti niður tíu stig í röð og jafnaði leikinn, 82:82. Liðin skiptust síðan á að setja niður körfur undir lok leiks eða allt þar til Kári Jónsson setti niður þrist fyrir heimamenn og kom þeim yfir, 92:89, þegar 19,5 sekúndur voru eftir af leiknum. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu en náðu ekki að jafna og kláraði Ozren Pavlovic leikinn fyrir heimamenn af vítalínunni.
Lokatölur voru 96:89 fyrir heimamenn og leiða þeir einvígið, 2:1.
Kári Jónsson var atkvæðamestur heimamanna með 26 stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar. Hjá gestunum var Niels Gutenius atkvæðamestur með 21 stig, átta fráköst og fjórar stoðsendingar.
Fjórði leikur liðanna fer fram föstudaginn 14. apríl nk. í Garðabæ og ljóst er að von er á hörkuleik.
Origo-höllin, Subway deild karla, 11. apríl 2023.
Gangur leiksins: 6:3, 12:5, 17:13, 22:15, 26:23, 29:34, 42:39, 51:48, 61:56, 63:60, 67:63, 67:71, 70:75, 72:82, 84:83, 96:89.
Valur: Kári Jónsson 26/6 fráköst, Callum Reese Lawson 16/5 fráköst, Pablo Cesar Bertone 15/5 stoðsendingar, Ozren Pavlovic 12/5 fráköst, Hjálmar Stefánsson 10/10 fráköst/3 varin skot, Kristófer Acox 9/6 fráköst, Ástþór Atli Svalason 8.
Fráköst: 26 í vörn, 10 í sókn.
Stjarnan: Niels Gustav William Gutenius 21/8 fráköst, Dagur Kár Jónsson 15, Júlíus Orri Ágústsson 14, Adama Kasper Darbo 14/7 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 12/7 fráköst, Armani T´Bori Moore 8, Kristján Fannar Ingólfsson 3, Arnþór Freyr Guðmundsson 2.
Fráköst: 24 í vörn, 5 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Aron Rúnarsson.
Áhorfendur: 375.