Haukar sigruðu Þórsara frá Þorlákshöfn í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta á Ásvöllum í kvöld. Lokatölur urðu 104:90, heimamönnum í vil og leiða þeir einvígið, 2:1.
Það var mikið undir í kvöld þegar Þórsarar mættu í Hafnarfjörðinn og ljóst var frá fyrstu mínútu að hörkuleikur væri í vændum.
Heimamenn fengu vondar fréttir fyrir leik þegar kom í ljós að hvorki Darwin Davis Jr. né Norbertas Giga yrðu með í kvöld. Fyrir fram var haldið að Þórsarar myndu nýta sér það og vinna þennan leik en Haukamenn sýndu gríðarlegan karakter og vilja og unnu á endanum leikinn mjög sannfærandi.
Hafnfirðingar höfðu frumkvæðið í fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum með 11 stigum, 32:21. Daniel Mortensen og Hilmar Smári Henningsson fóru fyrir sínum mönnum og spiluðu frábæran sóknarleik á meðan varnarleikur gestanna var ekki upp á marga fiska.
Annar leikhluti bauð upp á meira af því sama, heimamenn voru grimmari og það virtist eitthvað vanta upp á hjá gestunum. Varnarleikurinn var slappur en sóknarleikurinn skánaði hjá Þórsurum þegar líða tók á leikhlutann. Heimamenn leiddu, 55:50, þegar flautað var til hálfleiks og máttu gestirnir þakka Grikkjanum stóra, Fotios Lampropoulos, fyrir að ekki væri munurinn meiri. Hann fór fyrir gestunum í sóknarleik þeirra og skilaði 19 stigum í fyrri hálfleiknum. Hjá heimamönnum var Daniel Mortensen með 16 stig og Hilmar Smári með 15 stig þegar flautan gall.
Heimamenn héldu áfram að berjast og hlaupa hvor fyrir annan í þriðja leikhluta og leiddu eftir hann, 81:75. Orri Gunnarsson fór fyrir heimamönnum og hafði, þegar leikhlutinn var liðinn, skorað 21 stig. Leikhlutinn var jafn og spennandi en heimamenn höfðu frumkvæðið.
Í fjórða leikhluta hertu Haukamenn tökin enn frekar og leiddu með 11 stigum um hann miðjan, 89:78. Hafnfirðingarnir sýndu svo mikinn þroska í spilamennsku sinni og kláruðu leikinn sannfærandi. Leikurinn endaði með 14 stiga sigri heimamanna, 104:90.
Orri Gunnarsson var stigahæstur heimamanna með 28 stig og Hilmar Smári Henningsson fylgdi honum fast á eftir með 26 stig. Hjá gestunum voru Vincent Shahid og Fotios Lampropoulos atkvæðamestir með 23 stig hvor. Fjórði leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn mánudaginn 17. apríl nk. og ljóst er að Þórsarar verða að vinna þann leik ef þeir vilja halda sér á lífi í þessu einvígi.