Stórsigur Keflvíkinga á Tindastóli

Leikmenn beggja liða bíða átekta eftir boltanum í frákastabaráttu.
Leikmenn beggja liða bíða átekta eftir boltanum í frákastabaráttu. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Keflvíkingar sýndu loksins mátt sinn í kvöld í einvígi sínu gegn Tindastól í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með 100:78-sigri gegn lánlausum gestum sínum úr Skagafirði.

Staðan í einvíginu er því 2:1, Tindastóli í hag, en Skagfirðingarnir hefðu verið komnir í undanúrslit með sigri í kvöld.

Fyrir leik voru heimamenn í Bítlabænum með bakið upp við vegginn fræga og það sást langar leiðir að þeir voru langt frá því að vera tilbúnir í sumarfríið. 

Einbeitingin úr augum Keflvíkinga var nánast áþreifanleg allt frá upphafi leiks. Þeir einhvern veginn stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínútu og fljótlega voru þeir komnir í nokkuð þægilega forystu.

Í seinni hálfleik bættu þeir bara í og þessi 20 stiga forysta sem þeir byggðu upp fljótlega í seinni hálfleik hélt vatni allt til loka leiks og fögnuðu heimamenn gríðarlega. 

Tindastólsmenn sem mættu í kvöld í þeirri von að sópa Keflvíkingum úr keppni voru einfaldlega langt frá sínu besta. Hvað olli því er eitthvað sem Pavel Ermolinskij þjálfari þeirra þarf að fara í saumana á. En ofan í slakan leik þeirra þá voru þeir afar lánlausir jafnvel í einföldustu færum sem þeir sköpuðu sér.  Það var bara eins og þeir ættu ekki að vinna þetta kvöldið.

Mögulega eini brosandi Sauðkrækingurinn í kvöld var gjaldkeri klúbbsins því á laugardag má búast við smekkfullum heimavelli þeirra Tindastólsmanna í vægast sagt svakalegum leik. 

En aftur að leiknum í kvöld og þá helst til frammistöðu heimamanna en þá munar töluvert fyrir þá að David Okeke virðist vera hægt en örugglega að detta í fyrra form. Hann skoraði 12 stig og tók sjö fráköst í kvöld og á stundum voru Tindastólsmenn í bölvuðu vandræðum að eiga við kappann. Mögulega að þeir Keflvíkingar nýti sér hann betur í komandi leikjum. 

Sem fyrr segir er næsti leikur milli liðanna á laugardag í Skagafirði.

Keflavík 100:78 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert