Stjarnan þarf einn sigur í viðbót til að tryggja sér sigur í 1. deild kvenna í körfubolta, eftir 74:68-heimasigur á Þór frá Akureyri í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu í kvöld. Staðan í einvíginu er 2:1, Stjörnunni í vil.
Réðust úrslitin í framlengingu, eftir mikla spennu í venjulegum leiktíma. Þór var með 52:46-forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, en Stjarnan var sterkari í lokaleikhlutanum og tryggði sér framlengingu. Þar reyndust Stjörnukonur töluvert sterkari.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 32 stig fyrir Stjörnuna og Ísold Sævarsdóttir bætti við 16 stigum og tók 12 fráköst. Madison Sutton skoraði 30 stig fyrir Þór og tók auk þess 19 fráköst.
Fjórði leikur liðanna fer fram á Akureyri á sunnudaginn kemur.