Chicago og Oklahoma skrefi nær úrslitakeppninni

Zach LaVine hæstánægður eftir stórleik sinn í nótt.
Zach LaVine hæstánægður eftir stórleik sinn í nótt. AFP/Andrew Lahodynskyj

Chicago Bulls og Oklahoma City Thunder unnu nauma sigra í umspilsleikjum um laust sæti í úrslitakeppnum Austur- og Vesturdeilda NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt.

Zach LaVine fór á kostum í liði Chicago þegar það vann magnaðan endurkomusigur á Toronto Raptors, 109:105.

LaVine skoraði 39 stig og tók sex fráköst. DeMar DeRozan bætti við 23 stigum og sjö fráköstum fyrir Chicago.

Pascal Siakam fór fyrir Toronto er hann skoraði 32 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Fred VanVleet lék einnig frábærlega og skoraði 26 stig, tók 12 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Toronto leiddi með níu stigum, 72:63, að loknum þriðja leikhluta. Frábær fjórði leikhluti skilaði hins vegar Chicago fjögurra stiga sigri.

Chicago mun næst mæta Miami Heat í umspilinu, þar sem liðin munu berjast um sæti í átta liða úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Oklahoma vann sterkan sigur á New Orleans Pelicans, 123:118, í umspilinu í Vesturdeildinni.

Shai Gilgeous-Alexander var stigahæstur allra í leiknum með 32 stig fyrir Oklahoma.

Josh Giddey átti einnig stórleik er hann skoraði 31 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Luguentz Dort bætti við 27 stigum.

Brandon Ingram fór fyrir New Orleans með því að skora 30 stig, taka sex fráköst og gefa sjö stoðsendingar.

Litháinn Jonas Valanciunas var einnig öflugur og skoraði 16 stig ásamt því að taka 18 fráköst.

Oklahoma var við stjórn stóran hluta leiksins og þrátt fyrir gott áhlaup New Orleans í fjórða leikhluta reyndist fimm stiga sigur Oklahoma niðurstaðan.

Oklahoma mætir Minnesota Timberwolves í viðureign um laust sæti í átta liða úrslitakeppni Vesturdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert