Haukakonur tryggðu sér oddaleik

Elísabeth Ýr Ægisdóttir úr Haukum og Ásta Júlía Grímsdóttir hjá …
Elísabeth Ýr Ægisdóttir úr Haukum og Ásta Júlía Grímsdóttir hjá Val berjast um boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það var mikið í húfi þegar Valskonur tóku á móti Haukakonum í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta á Hlíðarenda í kvöld. Valskonur leiddu einvígið, 2:1, fyrir leikinn og er ljóst að gestirnir yrðu að vinna ef þær ætluðu að halda sér á lífi í einvíginu.

Leiknum lauk með sigri Haukakvenna, 80:70, og ljóst er að mikil spenna verður á Ásvöllum nk. sunnudag þegar oddaleikur einvígisins fer þar fram.

Fyrsti leikhluti var jafn og spennandi og það var ljóst snemma að mikið væri undir því liðin virkuðu taugaóstyrk í byrjun leiks og erfitt var að koma boltanum ofan í körfuna. Þegar mesti skrekkurinn var farinn úr leikmönnum beggja liða, þá skiptust liðin á körfum og staðan eftir fyrsta leikhluta var 20:22, gestunum í vil.

Kiana Johnson keyrir í átt að körfunni í kvöld.
Kiana Johnson keyrir í átt að körfunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í öðrum leikhluta sáu Valskonur ekki til sólar gegn gríðarlega sterkri vörn Haukakvenna, t.a.m. skoruðu þær ekki fyrstu stigin sín í leikhlutanum fyrr en fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Þá höfðu gestirnir gert 14 stig og tekið afgerandi forystu. Munurinn fór mest upp í 21 stig en þá bitu Valskonur frá sér og minnkuðu muninn. Staðan í hálfleik var 32:47, Haukakonum í vil.

Í þriðja leikhluta voru heimakonur grimmari og ljóst er að Ólafur Jónas, þjálfari Vals, hefur farið vel yfir málin með sínum leikmönnum í hálfleik. Þær náðu að minnka muninn niður í sjö stig þegar Kiana Johnson setti niður þriggja stiga körfu. Þá tóku Haukakonur aftur við sér og leiddu þegar leikhlutinn kláraðist, 51:64.

Það var hart barist á Hlíðarenda í kvöld.
Það var hart barist á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórði leikhlutinn var svipaður og sá þriðji, Valskonur reyndu að minnka muninn en Haukakonur áttu svör við öllum þeirra aðgerðum. Fór svo að Hafnfirðingarnir unnu leikinn, 70:80, og tryggðu sér þar með oddaleik í einvíginu.

Kiana Johnson var stigahæst heimakvenna með 19 stig. Hjá Haukakonum var Keira Breeanne Robinson stigahæst með 23 stig. Sólrún Inga Gísladóttir var einnig frábær í kvöld og skilaði hún 21 stigi fyrir gestina.

Valur 70:80 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert