Kristófer ekki með á morgun

Kristófer Acox og Armani Moore eigast við í leik Vals …
Kristófer Acox og Armani Moore eigast við í leik Vals og Stjörnunnar á þriðjudagskvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer Acox, lykilmaður ríkjandi Íslandsmeistara Vals, verður ekki með liðinu í fjórða leik liðsins gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn annað kvöld eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í þriðja leik liðanna á þriðjudagskvöld.

Kristófer meiddist á vinstri kálfa og þurfti frá að hverfa eftir aðeins 13 mínútna leik vegna meiðslanna. Hann bíður þess nú að fá að vita hversu alvarleg meiðslin eru.

„Ég fór í segulómun í gær og er í rauninni bara að bíða eftir niðurstöðunni. Vonandi fæ ég niðurstöðuna á næstu dögum, hún ætti að koma einhvern tíma fyrir helgi,“ sagði Kristófer í samtali við mbl.is.

Vissi strax að þetta væri alvarlegt

„Ég fékk í vinstri kálfann í leiknum á þriðjudaginn. Ég glímdi við svipuð meiðsli fyrir 2-3 árum síðan. Fyrsta árið mitt í Val lenti ég í miklu veseni með kálfann, sama kálfa.

Ég fann svipað til þegar þetta gerðist núna og ég gerði þá þannig að ég vissi strax að þetta væri eitthvað alvarlegt og þyrfti að koma mér af vellinum,“ hélt hann áfram.

Þrátt fyrir það bindur Kristófer vonir við að meiðslin séu ekki það alvarleg að þau haldi honum lengi frá keppni.

„Ég ætla að vona ekki, það væri hræðileg tímasetning til þess að lenda í þessu. Ég er strax skárri í dag heldur en ég var á þriðjudagskvöldið og leyfi mér að vera bjartsýnn yfir því að þetta verði allt í góðu.“

Fengi aukinn tíma með sigri

Valur leiðir 2:1 í einvíginu gegn Stjörnunni og með sigri í leiknum annað kvöld tryggir liðið sér sæti í undanúrslitum.

„Ég verð ekki með leiknum á morgun og það er vonandi að strákarnir nái að klára þetta. Þá fæ ég aukatíma þar sem við myndum fá nokkra daga í frí og allavega þrjá leiki til viðbótar.

Við þurfum að byrja á því að vinna á morgun og svo sjáum við til hvenær ég kemst inn í þetta aftur. Það er þannig séð engin ákveðin tímasetning á mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert