Undirritaður hefur í gegnum árin í NBA-dálkum sínum í Morgunblaðinu og á mbl.is oft gagnrýnt NBA-deildina í körfubolta fyrir að skipuleggja of marga leiki, bæði í deildakeppninni og úrslitakeppninni.
Mest af þeirri ástæðu að deildakeppnin er einfaldlega of löng eftir að úrslitakeppnin var lengd, sem leitt hefur til þess að forráðamenn liðanna hafa í auknu máli farið að hvíla stjörnuleikmenn hvívetna í deildakeppninni.
Áhorfendur á leikjunum eru margir hverjir að kaupa miða með löngum fyrirvara, margir af þeim ferðamenn eða fólk sem fer á örfáa leiki, þar sem þessir miðar eru dýrir fyrir flest venjulegt launafólk. Oft eru þessir miðar keyptir á endursölumarkaðnum, sem gerir þá enn dýrari.
Þetta fólk mætir svo í höllina til að sjá uppáhaldsleikmenn sína, bara til að sjá þá í tískufötum, sitjandi á varamannabekknum þótt heilir séu.
Það sama má segja um þá sem horfa á þessa leiki í sjónvarpi. Oft veit enginn fyrr en rétt fyrir leik að forráðamenn liðanna hafa tekið þá ákvörðun að „hvíla“ þessa stjörnuleikmenn.
Í venjulegum viðskiptum er þetta kallað „bait and switch“ hér vestra og er ólöglegt samkvæmt viðskiptalögum. Hér er átt við að viðskiptavinir sjá auglýst að þeim sé boðin ákveðin vara á ákveðnu verði, en þegar þeir mæta á staðinn, er þeim sagt að sú vara sé ekki lengur í boði – EN að seljandinn sé tilbúinn að bjóða aðra vöru – stundum á hærra verði.
Það er erfitt að sjá hvernig að það sem liðin og deildin eru að gera hér sé ekki það sama.
Þessi staða stafar af fjölgun leikja á keppnistímabilinu svo að sjónvarpsstöðvarnar hafi fleiri leiki að sjónvarpa og auka innkomu deildarinnar - þar með meiri pening fyrir leikmenn (eins og bent hefur verið á í þessum pistlum í gegnum árin, eru laun leikmanna í deildinni beintengd innkomu liðanna og deildarinnar í kjarasamningum þessara aðila).
Til að bæta gráu ofan á svart, framlengdi stéttarfélag leikmanna samning sinn við eigendur liðanna í síðustu viku, og nýja samkomulagið gefur NBA-deildinni leyfi til að setja á stofn einhverskonar útsláttakeppni á miðju leiktímabilinu. Það veit enginn enn hvaða fyrirkomulag sú keppni mun hafa, en hún mun einungis fjölga leikjunum – OG búa til fleiri leiki fyrir sjónvarpsstöðvarnar.
Ég veit að þú lesandi góður vildir bara fá innsýn inn í komandi leiki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar. Og þú færð hana hér á mbl.is snemma í fyrramálið.
En, það er orðið æ erfiðara að fyrir undirritaðan að æsa sig upp fyrir framan tölvuskerminn til að skrifa þessar greinar í upphafi úrslitakeppninnar, sérstaklega eftir að deildin fann upp „umspilið“ svokallaða, sem var leikið fyrr í þessari viku.
Ef litið er á liðin í umspilinu, þá er ekki eins og að Toronto, Atlanta, Minnesota eða Oklahoma City ætli að ógna toppliðunum í þessari úrslitakeppni. Í gegnum áratugina hefur enginn blaðamaður verið að æsa sig upp til að skrifa grein rétt fyrir upphaf úrslitakeppninnar um einhver lið í sjöunda til tíunda sæti í Austur- eða Vesturdeild. Þessi lið eru vanalega auðveld bráð fyrir toppliðin í fyrstu umferðinni!
Það er því erfitt að réttlæta umspilið, nema að sjá það sem peningagræðgi. Þegar tuttugu af þrjátíu liðum deildarinnar komast í umspilið eða úrslitakeppnina er ekki laust við að maður hugsi um af hverju liðin séu að leika 82 deildaleiki hvert á tímabilinu.
Ætlar einhver að reyna að skýra út fyrir mér af hverju ég átti að hafa minnsta áhuga á leik Oklahoma City Thunder og New Orleans Pelicans á miðvikudaginn var?
Hélt ekki.
En hér erum við samt og leikirnir halda áfram.