Stjarnan tók á móti Val í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í Garðabæ í kvöld. Leiknum lauk með sigri gestanna, 74:68, og eru Íslandsmeistararnir komnir í undanúrslit Íslandsmótsins.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og höfðu frumkvæðið. Armani T´Bori Moore skoraði fyrstu sjö stig Stjörnumanna og kom þeim í, 7:2, forystu snemma í leiknum. Gestirnir komu þá með gott áhlaup og leiddu þegar leikhlutinn var liðinn, 15:19.
Annar leikhluti var hnífjafn allan tímann og mátti vel greina á báðum liðum að mikið væri undir í þessum leik. Sóknarleikur beggja liða var stirður, skotnýting Valsara í fyrri hálfleik var 31% á meðan heimamenn voru með 35% skotnýtingu en 11 tapaða bolta. Valsarar leiddu, 32:31, þegar flautað var til hálfleiks.
Sóknarleikur beggja liða var töluvert skárri í þriðja leikhluta. Valsarar mættu mun grimmari út úr hálfleiknum og tóku sannfærandi forystu snemma í leikhlutanum, 35:43. Heimamenn bitu frá sér og náðu að minnka muninn niður í fimm stig áður en leikklukkan gall, 52:57, staðan gestunum í vil.
Í fjórða leikhluta komu Stjörnumenn grimmari til leiks. Armani T´Bori Moore kom þeim yfir, 60:59, þegar hann skoraði sextándu stig sín. Þá var komið að Kára Jónssyni að taka yfir leikinn, rétt eins og hann gerði í síðasta leik liðanna. Kári skoraði níu stig í röð fyrir Valsara og kom þeim í sex stiga forystu, 62:68. Þá kom áhlaup frá heimamönnum og minnkuðu þeir muninn í 68:70. Armani T´Bori Moore fékk tvö tækifæri til að jafna leikinn en klikkaði á ögurstundu og Valsarar sigldu sigrinum heim. Niðurstaðan, 68:74 sigur Valsara og þeir á leiðinni í undanúrslit, Stjörnumenn eru hinsvegar komnir í sumarfrí.
Niels Gutenius var atkvæðamestur heimamanna með 24 stig og 10 fráköst. Hjá gestunum var Kári Jónsson stigahæstur með 22 stig og 6 stoðsendingar. Hjálmar Stefánsson átti stórleik og reif niður 14 fráköst.