Þetta eru mikil vonbrigði

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnumanna.
Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnumanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnumanna, sagðist í samtali við mbl.is vera svekktur eftir 68:74 tap liðsins á heimavelli í kvöld gegn Völsurum. Með tapinu eru Stjörnumenn dottnir úr leik og komnir í sumarfrí.

„Þetta eru mikil vonbrigði, við höfðum tækifæri til að vinna þennan leik en við nýttum þau ekki. Við vorum bara ekki nógu góðir og því fór sem fór. Valur voru betri en við í seríunni og því vinna þeir einvígið, það er einfalt. Ég get ekki notað sömu frasa og knattspyrnuþjálfarar þegar þeir segja: „Betra liðið tapaði hér í kvöld“ það er ekki þannig í körfubolta, betra liðið vinnur og Valur eru betri en við.“

Stjörnumenn gáfu Völsurum hörkuleiki í þremur af fjórum leikjum einvígsins, aðspurður hvort það gefi ekki Stjörnumönnum eitthvað inn í næsta tímabil að vita að þeir geti staðið í bestu liðunum svaraði Arnar:

„Við þurfum bara að vera með betra lið á næsta ári. Okkur langar að vera betri og við þurfum að gera allt sem við getum til þess. Við þurfum að spýta í lófana fyrir næsta tímabil því að þetta tímabil var alls ekki nógu gott.“

Samningur Hlyns Bæringssonar rennur út núna í lok tímabilsins. Fréttaritari fékk skýrt svar þegar hann spurði Arnar hvort hann vissi hvað yrði um Hlyn á næsta tímabili:

„Hann verður með okkur, hann hefur ekkert betra að gera.““

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert