Körfuknattleikskonan Danielle Rodriguez hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Grindavíkur og leikur því áfram með kvennaliðinu á næsta tímabili.
Danielle mun jafnframt halda áfram störfum sínum við þjálfun yngri flokka félagsins.
Danielle, sem verður þrítug í lok árs, var með 20 stig að meðaltali í leik hjá Grindavík á síðasta tímabili ásamt því að gefa tæplega sjö stoðsendingar og taka sjö fráköst að meðaltali.. Hún var með framlagsstig upp á 25,2 í leik á nýafstöðu tímabili, þar sem Grindavík hafnaði í fimmta sæti í úrvalsdeild kvenna, Subway-deildinni.
„Danielle hefur komið frábærlega inn í körfuboltasamfélagið hér í Grindavík og það eru forréttindi að fá að starfa áfram með henni á næsta keppnistímbili. Dani er frábær leikmaður en ekki síst frábær manneskja.
Hún hefur staðið sig frábærlega við þjálfun hjá félaginu og ég veit að það er mikil gleði í okkar körfuboltafjölskyldu að Danielle verði áfram í Grindavík,“ sagði Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, í tilkynningu frá deildinni.