Jaylen Brown og Jayson Tatum fóru einu sinni sem oftar fyrir Boston Celtics þegar liðið vann þægilegan sigur á Atlanta Hawks, 112:99, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik í kvöld.
Um stund var útlit fyrir að Boston myndi einfaldlega niðurlægja Atlanta þar sem munurinn varð mestur 32 stig, 76:44, í upphafi þriðja leikhluta.
Í kjölfarið tók Atlanta hins vegar vel við sér, lagaði stöðuna eftir því sem leið á leikinn en tókst ekki að komast nær en 12 stigum frá Boston, 107:95, þegar skammt var eftir.
Niðurstaðan að lokum góður 13 stiga sigur Boston, sem leiðir 1:0 í einvíginu.
Brown var stigahæstur í leiknum með 29 stig og 12 fráköst. Tatum bætti við 25 stigum og 11 fráköstum auk þess sem Derrick White skoraði 24 stig og gaf sjö stoðsendingar.
Stigahæstur hjá Atlanta var Dejounte Murray með 24 stig, átta fráköst og sex stoðsendingar.