Það einkennilega við úrslitakeppni NBA í ár er að þrátt fyrir ýmislegt sem betur mætti fara í keppninni í NBA, virðast körfuboltaguðirnir hafa sett upp nokkrar athyglisverðar rimmur í fyrstu umferðinni.
Í Austurdeildinni eru það einungis tvö lið sem skipta máli – Milwaukee Bucks og Boston Celtics. Þessi lið munu eflaust mætast á endanum í lokarimmunni austanmegin.
Boston mun sennilega rúlla upp Atlanta Hawks án erfiðleika og Milwaukee mun gera það sama við Miami.
Philadelphia 76ers munu eflaust gera það sama gegn Brooklyn Nets, en leiksería Cleveland Cavaliers og New York Knicks gæti orðið jöfn.
Á endanum verða það þó Boston og Milwaukee sem berjast um að komast í Lokaúrslitin.
Það verður hins vegar mun meira fjör í fyrstu umferðinni vestanmegin.
Þar hefur keppnin verið mun jafnari í allan vetur og vegna meiðsla lykilmanna í sumum liðum, koma nokkur lið inn í úrslitakeppnina nú með nokkrar væntingar þótt þau hafi lent í lægri sætum.
Denver Nuggets var yfirburðalið í Vesturdeildinni og átti fyrsta sætið í deildinni öruggt allan síðasta mánuðinn. Það eru þó alla vega sex önnur lið sem geta sett strik í reikninginn fyrir Nuggets, og rétt er að benda á að fáir áttu von á miklu frá Golden State fyrir úrslitakeppnina í fyrra.
Eina rimman í fyrstu umferðinni sem virðist gefin er liðið úr umspilinu sem þarf að ferðast upp í Klettafjöllin í Kólórado að eigast við Denver Nuggets. Nikola Jokic og félagar munu rúlla Minnesota upp án erfiðleika.
Keppni Phoenix Suns og Los Angeles Clippers ætti að vera spennandi. Bæði þessi lið máttu eiga við erfið meiðsl lykilleikmanna, en hjá Denver er Kevin Durant nú orðinn heill og hjá Clippers er Kawhi Leonard nú búinn að ná sér eftir langvarandi meiðsl og kominn í toppform að nýju.
Ég spái að Phoenix muni vinna þessa leikseríu þar sem Clippers eru, jú, Clippers. Phoenix er með leikmenn sem hafa verið í Lokaúrslitunum og vita hvað það tekur að komast þangað.
Keppni nágrannaliðanna hér í Norður-Kaliforníu, Sacramento Kings og Golden State Warriors, gæti orðið besta rimman í fyrstu umferðinni. Sacramento er með sitt besta lið í áratugi og náði þriðja sætinu í deildakeppninni vestanmegin.
Þetta er ungt og orkumikið lið sem er hungrað, en meistarar Warriors sýndu í fyrra að þegar leikmannahópurinn er heill, er liðið skeinuhætt hvaða andstæðingi sem er. Fyrir Golden State mun lykillinn að sigri hér velta á því hversu vel Andrew Wiggins nær að komast á strik, en hann missti af síðustu 28 deildaleikjum Warriors af fjölskylduástæðum. Hann er nú mættur að nýju og mun eflaust vera í byrjunarliðinu. Ef hann nær að leika vel strax í fyrsta leik, gæti hann bætt mesta veikleika Golden State, varnarleikinn. Warriors var með þriðja verstu vörnina í vetur, og eins gott er fyrir liðið að bæta það ef Golden State á a slá út Sacramento.
Loks er að geta rimmu Memphis Grizzlies og Los Angeles Lakers. Flestir sérfræðingar hér vestra eru að veðja á Lakers hér, þar sem tveir af lykilleikmönnum Grizzlies - Steven Adams og Brandon Clarke – eru meiddir. Svo kann að fara að Lakers vinni hér, en ég hef séð til liðsins undanfarið og ég hef enga tiltrú á að Lakers fari langt í þessari úrslitakeppni nema að varnarleikur liðsins batni verulega.