Philadelphia byrjaði á sigri

Joel Embiid í baráttu við Spencer Dinwiddie í kvöld.
Joel Embiid í baráttu við Spencer Dinwiddie í kvöld. AFP/Mitchell Leff

Philadelphia 76ers hóf úrslitakeppnina í NBA-deildinni í körfuknattleik á því að hafa örugglega betur gegn Brooklyn Nets, 121:101, í átta liða úrslitum Austurdeildarinnar í kvöld.

Heimamenn í Philadelphia voru með yfirhöndina allan tímann og 20 stiga sigurinn því fyllilega sanngjarn.

Stigahæstur í liði Philadelphia var Kamerúninn Joel Embiid með 26 stig.

James Harden bætti við 23 stigum og gaf auk þess 13 stoðsendingar. Tobias Harris skoraði þá 21 stig.

Stigahæstur í leiknum var hins vegar Mikal Bridges með 30 stig fyrir Brooklyn.

Philadelphia leiðir nú í einvíginu, 1:0, en fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert