Þórsarar tryggðu sér oddaleik

Jordan Semple sækir að körfu Hauka í fyrsta leik liðanna.
Jordan Semple sækir að körfu Hauka í fyrsta leik liðanna. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þór Þorlákshöfn hafði betur gegn Haukum, 94:82, í 8-liða úrslitum úrslitakeppni karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld. Þórsarar tryggðu sér þar með oddaleik í Hafnarfirðinum á mánudaginn kemur. 

Haukar voru yfir í einvíginu, 2:1, fyrir leik kvöldsins en góðar fréttir bárust úr herbúðum liðsins þar sem Nobertas Giga var klár í slaginn. Úr herbúðum Þórs bárust hinsvegar slæmar fréttir en Styrmir Snær Þrastarson var ekki leikfær í kvöld vegna vægs heilahristings sem hann fékk í þriðja leik liðanna. 

Haukar byrjuðu leikinn betur og komust í 8:2 á fyrstu mínútunum. Þórsarar voru sterkari aðilinn eftir það og leiddu með fimm stigum að fyrsta leikhluta loknum, 24:19. 

Þór jók forskot sitt í byrjun annars leikhluta í mest níu stig, 31:22, en Haukar svöruðu með tíu stigum í röð, átta þeirra frá Daniel Mortensen, og komust yfir 32:31. Aftur lauk Þórsliðið leikhlutanum betur og var átta stigum yfir í hálfleik , 46:38.  

Sama var upp á bátnum í þriðja leikhluta þar sem Þór hélt forystu sinni í kringum tíu stig allan leikhlutann. 

Haukar fengu nokkur tækifæri til að koma sér aftur í leikinn í fjórða leikhluta en tvívegis fékk Þórsliðið dæmt á sig óíþróttamannslega villu. Haukar fóru vægast sagt hörmulega með þau tækifæri og uppskáru aðeins eitt stig. 

Að lokum vann Þór góðan tólf stiga sigur, 94:82, og tryggði sér í leiðinni oddaleik. 

Jordan Semple var afar mikilvægur fyrir Þórsara í kvöld en hann setti 26 stig, tók ellefu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Vincent Shahid átti einnig góðan leik fyrir Þórsara en hann setti 18 stig og gaf 14 stoðsendingar ásamt því að taka þrjú fráköst. 

Tómas Valur Þrastarson steig upp í fjarveru bróður síns, Styrmis Snæs Þrastarsonar, og setti 21 stig, tók fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu. Stigahæstur í liði Hauka var Daniel Mortensen með 20 stig. 

Gott svar hjá Þórsliðinu sem varð harðlega gangrýnt fyrir síðasta leik í Ólafssal. Vörnin í kvöld var mun sterkari og sýndu leikmenn Þórs mun meiri anda og karakter. 

Oddaleikurinn fer fram í Ólafssal á Ásvöllum á mánudaginn kemur. 

Gangur leiksins:: 2:8, 9:9, 19:14, 24:19, 29:22, 31:32, 37:32, 46:38, 49:43, 56:45, 61:55, 72:59, 76:65, 85:74, 89:77, 94:82.

Þór Þ.: Jordan Semple 26/11 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 21/4 fráköst, Vincent Malik Shahid 18/14 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 11, Emil Karel Einarsson 6, Pablo Hernandez Montenegro 6/5 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6/4 fráköst.

Fráköst: 20 í vörn, 12 í sókn.

Haukar: Daniel Mortensen 20, Orri Gunnarsson 19/4 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 14/5 fráköst/7 stoðsendingar, Daníel Ágúst Halldórsson 12/7 fráköst, Norbertas Giga 11/5 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Barja 3, Breki Gylfason 3.

Fráköst: 18 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Bjarki Þór Davíðsson, Jon Thor Eythorsson.

Áhorfendur: 810

Þór Þ. 94:82 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert