Tindastóll í undanúrslit í magnaðri stemningu í Síkinu

Sigtryggur Arnar Björnsson og Hörður Axel Vilhjálmsson eigast við í …
Sigtryggur Arnar Björnsson og Hörður Axel Vilhjálmsson eigast við í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Tindastóll tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með sigri á Keflavík, 97:79, í fjórða leik liðanna í Síkinu á Sauðárkróki. Stemningin í Síkinu var algjörlega til fyrirmyndar og gaf heimamönnum greinilega byr undir báða vængi.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru ákveðnari á báðum endum vallarins. Gestirnir úr Keflavík virtust vera í smá stund að venjast stemningunni í Síkinu en þegar leið á fyrsta leikhlutann fór liðið að spila betur og kom til baka. Tindastóll endaði leikhlutann þó betur og leiddi með sex stigum að honum loknum, en þar munaði mest um frábæra innkomu Taiwo Badmus.

Í byrjun annars leikhluta kom hins vegar hökt í leik Tindastóls og Keflavík gekk á lagið. Liðið minnkaði muninn og komst svo yfir, en um miðjan leikhlutann tóku heimamenn við sér á nýjan leik og enduðu leikhlutann af þvílíkum krafti. Þegar skammt var eftir settu bæði Sigtryggur Arnar Björnsson og Antonio Keyshawn Woods niður þriggja stiga skot og komu Tindastóli 13 stigum yfir. David Okeke hins vegar minnkaði muninn niður í 10 stig á lokasekúndu hálfleiksins með því að setja niður góða körfu og víti með henni. Staðan í hálfleik var 49:39, heimamönnum í vil.

Í þriðja leikhluta tóku heimamenn svo öll völd á vellinum. Liðið lék frábærlega, spilaði flæðandi sóknarbolta og virkilega góða vörn. Keflavík náði þó að halda muninum í 16 stigum að loknum þriðja leikhluta, en munurinn hefði hæglega getað verið talsvert meiri miðað við spilamennsku liðanna.

Í fjórða leikhluta var það svo hálfgert formsatriði fyrir Tindastól að landa sigrinum. Liðið hélt uppteknum hætti framan af leikhlutanum og náði yfir 20 stiga forystu. Keflavík reyndi aðeins að klóra í bakkann en hafði ekki erindi sem erfiði, en liðið komst aldrei nær en 18 stig. Svo fór að lokum að Tindastóll sigldi sannfærandi sigri í höfn, 97:79.

Antonio Keyshawn Woods var stigahæstur í liði Tindastóls með 22 stig og Sigtryggur Arnar Björnsson kom næstur með 19. 

Hjá Keflavík var David Okeke sigahæstur með 17 stig en David Ayala kom næstur með 14.

Tindastóll vann því einvígið 3:1 og bætist þar með í hóp Njarðvíkur og Vals sem eru einnig komin í undanúrslitin. Einvígi Hauka og Þórs stendur enn yfir, en fjórði leikur liðanna fer fram síðar í kvöld.

Gangur leiksins:: 5:2, 13:4, 17:15, 25:19, 27:26, 30:32, 39:36, 49:39, 57:41, 59:47, 64:47, 68:54, 77:56, 80:62, 88:68, 97:79.

Tindastóll: Antonio Keyshawn Woods 22, Sigtryggur Arnar Björnsson 19/4 fráköst/5 stoðsendingar, Taiwo Hassan Badmus 12/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 12/9 fráköst/8 stoðsendingar, Davis Geks 10/6 fráköst, Adomas Drungilas 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8, Axel Kárason 3, Helgi Rafn Viggósson 2.

Fráköst: 29 í vörn, 3 í sókn.

Keflavík: David Okeke 17/4 fráköst, Eric Ayala 14, Halldór Garðar Hermannsson 13, Horður Axel Vilhjalmsson 12/4 fráköst, Dominykas Milka 8/7 fráköst, Igor Maric 6/7 fráköst, Ólafur Ingi Styrmisson 4, Nikola Orelj 3, Valur Orri Valsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: .

Áhorfendur: 1100

Tindastóll 97:79 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert