Þetta verður algjör veisla

Dagbjört Dögg Karlsdóttir á fleygiferð gegn Haukum.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir á fleygiferð gegn Haukum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagbjört Dögg Karlsdóttir átti fínan leik fyrir Val er liðið vann 56:46-útisigur á Haukum í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta og tryggði sér í leiðinni 3:2-sigur í einvíginu og úrslitaeinvígi gegn Keflavík.

„Ákefðin réði úrslitin. Við vorum fókuseraðar og ætluðum að klára þetta. Það var annað hvort þetta eða sumarfrí, svo það var auðvelt að gíra sig upp í þennan leik,“ sagði Dagbjört, sem skoraði sjö stig og tók þrjú fráköst í kvöld. Þá lék hún einnig góða vörn.

Valur vann fyrstu tvo leikina, en Haukar svöruðu með tveimur sannfærandi sigrum. Bjuggust því flestir við því að Haukar myndu fagna sigri í kvöld, en Dagbjört segir lið og stuðningsmenn Vals hafa verið á öðru máli.

„Við unnum fyrstu tvo leikina, en svo komu þær til baka. Kannski var meðbyrinn með þeim, en við horfðum á þennan leik eins og staðan væri 0:0. Við sáum þetta þannig að við hefðum alveg eins getað verið að koma til baka. Við horfðum á þetta eins og úrslitaleik.

Þetta var mjög sætt. Það var enginn nema við sjálfar og okkar stuðningsmenn sem héldu að við værum að fara að vinna þennan leik. Þær voru sigurstranglegri, því þær voru búnar að vinna okkur oftar í deildinni, svo þetta var mjög sætt. Þær áttu að vera með vindinn í bakið, eftir tvo sigra í röð, en við létum það ekki á okkur fá.“

Mjög lítið var skorað í leiknum, sérstaklega í fyrstu þremur leikhlutunum, en staðan eftir þá var 36:29.

„Mér fannst gaman að spila þennan leik. Þetta var harður varnarleikur frá fyrstu mínútu. Við höfum oft sett okkur markmið að leyfa liðunum ekki að skora meira en 15 stig í leikhluta. Þær skora 17 stig í fyrri hálfleik, en við sömuleiðis 22 stig. Þetta var járn í járn og það er eðlilegt að 2:2-sería sé svona í fimmta leik.“

Dagbjört er spennt fyrir úrslitaeinvígi við deildarmeistara Keflavíkur. „Mér líst mjög vel á það einvígi. Ég er sjúklega spennt. Þetta verður algjör veisla og ég get ekki beðið,“ sagði Dagbjört.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert