Valur tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta með 56:46-útisigri á Haukum í oddaleik í Ólafssal á Ásvöllum. Valur mætir Keflavík í úrslitum.
Liðin virtust mæta stressuð til leiks, því það var lítið skorað í upphafi og bæði lið fóru illa með góð færi. Að lokum var Valur með eins stigs forskot eftir leikhlutann, 8:7.
Aðeins meira var skorað í öðrum leikhluta og sá Valur fyrst og fremst um það framan af í leikhlutanum. Komst Valur mest tíu stigum yfir í öðrum leikhluta, 22:12. Haukar skoruðu þá fimm stig í röð og var munurinn í hálfleik fimm stig, 22:17.
Svipað mynstur hélt áfram í þriðja leikhluta. Lítið var skorað og Valskonur ávallt skrefinu á undan. Haukar voru þó ekki langt á eftir og munaði sjö stigum fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 36:29.
Valur byrjaði betur í fjórða leikhlutanum og náði ellefu stiga forskoti snemma í honum, 40:29. Þannig stóð þegar leikhlutinn var hálfnaður, 45:34. Haukum gekk illa að minnka muninn og var staðan 53:43 þegar tíu mínútur voru eftir.
Haukar náðu ekki að brúa þetta bil og Valur mætir Keflavík í úrslitaeinvíginu. Þar er Keflavík með heimavallarrétt og byrjar einvígið því í Keflavík.