Miami Heat hafði betur gegn Milwaukee Bucks, 130:117, á útivelli í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar í gærkvöldi og leiðir þar með 1:0 í einvíginu.
Milwaukee varð fyrir gífurlegu áfalli snemma leiks þegar Grikkinn magnaði, Giannis Antetokounmpo, þurfti að fara meiddur af velli.
Segja má að munurinn á liðunum hafi verið fólginn í því að Miami gat teflt fram sinni stærstu stjörnu, Jimmy Butler, á meðan heimamenn í Milwaukee gátu það í einungis ellefu mínútur.
Butler skoraði 35 stig og gaf ellefu stoðsendingar. Bam Adebayo bætti við 22 stigum, níu fráköstum og sjö stoðsendingum.
Í fjarveru gríska skrímslisins steig Khris Middleton upp og skoraði 33 stig fyrir Milwaukee, ásamt því að taka níu fráköst. Bobby Portis skoraði þá 21 stig og tók átta fráköst.
Tveir leikir fóru svo fram í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar í nótt.
LA Clippers lagði Phoenix Suns að velli, 115:110, þar sem Kawhi Leonard fór á kostum í liði Clippers og skoraði 38 stig.
Kevin Durant var stigahæstur hjá Phoenix með 27 stig auk þess sem hann tók níu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Devin Booker bætti við 26 stigum.
Clippers leiðir 1:0 í einvíginu.
Loks vann Denver Nuggets gífurlega öruggan sigur á Minnesota Timberwolves, 109:80.
Jamal Murray var stigahæstur hjá Denver með 24 stig. Tók hann auk þess átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Stigahæstur hjá Minnesota var Anthony Edwards með 18 stig.
Denver leiðir þar með 1:0 í einvíginu, en fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.