„Tilfinningin er ógeðslega vond, mér líður mjög illa,“ sagði Maté Dalmay, þjálfari Hauka, eftir svekkjandi tap, 93:95, fyrir Þór Þorlákshöfn í oddaleik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfuknattleik í kvöld.
„Það sem að klikkar í þessu er að þegar við höfum tækifærin, sífellt, til að slíta okkur frá þeim og koma muninum í tveggja stafa tölu þá erum við ekki að ná að tengja tvær góðar sóknir.
Þeir haldast einhvern veginn inn í þessum leik þrátt fyrir að finna ekki lausnir og svo förum við inn í 50/50 leik með fimm mínútur eftir og þeir setja fullt af stórum skotum. Fotios [Lampropoulos] setur stig og Vinnie Shahid skorar rosalega mikið á okkur en skotin okkar eru stutt.
Þess vegna fór þessi einnar sóknar leikur eins og hann fór.“
Hvað fannst þér um einvígið í heild sinni?
„Einvígið litast svolítið af meiðslum. Styrmir [Snær Þrastarson] dettur út hjá þeim, við erum laskaðir. Þannig þetta var svona skák og pælingar á milli liða, hver er að fara að spila fyrir hvaða lið og hver er að fara að stíga upp og bæta við sig framlagi.
En þetta var hörkueinvígi og fullt af skemmtilegum atvikum og einstaklingseinvígum.“
Haukar voru nýliðar í deildinni í ár en fengu til sín sterka menn og stefndu hátt. Maté segist vera nokkuð sáttur með tímabilið í heild sinni, en að úrslitin í kvöld séu að sjálfsögðu ógeðslega svekkjandi.
„Ég ætlaði mér að enda í topp fjórum og við náðum því. Ég ætlaði mér einnig að komast upp úr 8-liða úrslitunum og við náum því ekki.
Það er erfitt að vera ótrúlega neikvæður eftir að strákarnir gáfu líf og sál í þetta og spiluðu í gegnum alls konar mótlæti í rimmunni með tvo af okkar bestu leikmönnum í meiðslum. Þannig eftir að taka allt inn í reikninginn er ég ógeðslega svekktur en líka stoltur af þessum hóp.“