Shahid sendi Þór í undanúrslitin

Hilmar Smári Henningsson sækir að körfu Þórsara í kvöld. Tómas …
Hilmar Smári Henningsson sækir að körfu Þórsara í kvöld. Tómas Valur Þrastarson er til varnar. mbl.is/Arnþór

Þór Þorlákshöfn hafði betur gegn Haukum, 95:93, í frábærum leik í odda­viðureign liðanna 8-liða úr­slita Íslands­móts karla í körfu­bolta í Ólafssal á Ásvöll­um í kvöld. 

Þór mætir Val í undanúrslitum og Njarðvík mætir Tindastóli.

Fyrir leik kvöldsins var staðan 2:2, en bæði lið höfðu unnið sína heimaleiki, og nokkuð örugglega. Í heimaleikjum sínum höfðu bæði lið haft mikla yfirburði frá fyrstu mínútu og fylgt því eftir. 

Það virtist ekkert ætla að breytast hér í kvöld. Haukaliðið byrjaði á 10:3 kafla og komst svo í tíu stiga forystu, 20:10, þegar átta mínútur voru búnar en þá tók Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, leikhlé. Það skilaði sér, Þórsarar luku leikhlutanum betur og minnkuðu muninn í fjögur stig, 23:19. 

Annar leikhluti var sveiflukenndur en Haukamenn héldu forystu sinni allan tímann. Næst komst Þórsliðið einu stigi undir en Haukar svöruðu því með 7:0 kafla og komst átta stigum yfir, 44:36.

Aftur endaði Þór leikhlutann betur og minnkaði muninn í þrjú stig að leikhlutanum loknum. 44:41 fyrir Haukum voru hálfleikstölur í Ólafssal. 

Þórsarinn Vincent Shahid sýndi góðar hliðar í fyrri hálfleik og var með 14 stig og fjórar stoðsendingar. Norbertas Giga var atkvæðamestur hjá Haukum, einnig með 14 stig og fjögur fráköst. 

Þór komst yfir í fyrsta sinn í leiknum á 25. mínútu leiksins þökk sé körfu frá Pablo Hernandez. Þórsarar komust svo fimm stigum yfir stuttu seinna, 60:55, en Haukar svöruðu jafnóðum. 

Liðin skiptu stigunum á milli sín og að loknum leikhlutanum voru Haukar yfir með einu stigi, 73:72, og æsispennandi lokakafli fram undan. 

Haukar settu fyrstu fimm stig fjórða leikhlutans en Þórsarar jöfnuðu metin áður en langt um leið, 80:80. 

Haukar voru með yfirhöndina allt þar til á 38. mínútu en þá tók Vincent Shahid yfir leikinn, hann setti tólf stig á þeim tíma, 35 alls, og tryggði Þór sæti í undanúrslit Íslandsmótsins. Haukar reyndu eins og þeir gátu að minnka muninn, og gerðu það með prýði alla leið niður í tvö stig, en Þór hélt út og er á leiðinni í undanúrslit. 

Shahid var stigahæsti maður leiksins með 35 stig en hann tók einnig tvö fráköst og gaf átta stoðsendingar. Hilmar Smári Henningsson var atkvæðamestur í liði Hauka með 23 stig, átta fráköst og níu stoðsendingar. 

Stuðningur beggja liða var til fyrirmyndar í kvöld en Ólafssalurinn var fullur og söng fólkið allan leikinn.  

Gangur leiksins:: 10:3, 12:7, 16:10, 23:17, 27:23, 33:28, 39:36, 44:41, 49:44, 55:57, 65:62, 72:71, 79:74, 80:78, 84:83, 93:95.

Haukar: Hilmar Smári Henningsson 23/8 fráköst/9 stoðsendingar, Norbertas Giga 22/11 fráköst, Darwin Davis Jr. 18/6 fráköst, Orri Gunnarsson 12/5 fráköst, Daniel Mortensen 10/5 fráköst, Breki Gylfason 5, Daníel Ágúst Halldórsson 3.

Fráköst: 29 í vörn, 10 í sókn.

Þór Þ.: Vincent Malik Shahid 35/8 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 15/6 fráköst/3 varin skot, Pablo Hernandez Montenegro 14/6 fráköst, Jordan Semple 12/6 fráköst, Fotios Lampropoulos 10/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 9.

Fráköst: 24 í vörn, 3 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson.

Áhorfendur: 789

Haukar 93:95 Þór Þ. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert